Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:04:00 (4449)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir þær upplýsingar sem hann var með hér en þær voru glöggar og skýrar. Það er gott að maður heyrir að þingmenn hafi áhyggjur af því sem er að gerast í íslenskum iðnaði.
    Það var vikið að því hér að eitt af grundvallaratriðunum, til þess að hægt sé að byggja hér upp öflugan iðnað, felist m.a. í menntakerfinu sjálfu. Það væri sem sé bætt iðn- og verkmenntun sem þarf að styrkja. Ég tek heils hugar undir það. Það er kannski grundvöllurinn sjálfur. En það vakti athygli mína að fyrir örfáum dögum talaði ég fyrir þáltill. um endurmat á iðn- og verkmenntun í landinu. Enginn hæstv. ráðherra tók þátt í þeirri umræðu og það segir kannski sína sögu um skilningsleysið og áhugaleysið á þessum málum almennt.
    Það er ekki rétt sem hæstv. iðnrh. sagði að atvinnutækifærin verði ekki til í nefndum, þannig orðaði hæstv. ráðherra það. Auðvitað þarf umræðan einhvers staðar að hefjast. Það er einkennileg varnarstaða sem hæstv. ráðherra setur sig í vegna þess að það er gerð ákveðin tillaga um það hverja eigi að tilnefna í þessa nefnd. Menn leyfa sér það, flm. tillögunnar, sá sem hér stendur, að gera tillögu um það að þingflokkarnir á Alþingi fái að leggja til menn í nefnd til þess að endurskoða iðnaðarstefnuna. Það er kannski það sem fer í taugarnar á hæstv. iðnrh. (Forseti hringir.)
    Að lokum vil ég segja --- og ég er viss um að virðulegur forseti gefur mér sekúndubrot til að klára þetta vegna þess að ég veit að hann sem þingmaður Reykjavíkur hlýtur að hafa þungar áhyggjur af því sem er að gerast í iðnaðinum. Það er merkilegt ef forseti hefur það ekki. Það er ekki nokkur spurning og ég held að við séum öll sammála um það hér, a.m.k. þeir sem hér hafa talað, að íslenskur iðnaður er á margan hátt mjög vanbúinn til að mæta þeirri samkeppni sem fyrir dyrum stendur og allir eru sammála um að er á næsta leiti. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hann er búinn að biðja um orðið: Hvað hefur verið gert til þess að búa íslenskan iðnað undir þá samkeppni sem í augsýn er?