Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:15:00 (4455)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en hún hefur farið yfir á þær brautir að ég sé mig knúinn til að inna hæstv. iðnrh. nokkuð nánar eftir ummælum hans áðan varðandi það sorglega hlé sem hann taldi að hefði orðið á uppbyggingu orkufreks iðnaðar frá 1978. Nú vil ég bera það alveg af mér í það minnsta að hafa unnið á móti slíku en ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað það hefði verið sem var í farvatninu á þessum tíma og sem menn börðust á móti. Ég man ekki betur en allan þennan tíma hafi verið í gangi vinna til að leita eftir samstarfsaðilum varðandi frekari uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Við fórum nokkrir, m.a. sá sem hér stendur og hv. 5. þm. Norðurl. e., í ferð til Kanada á árinu 1983 eða 1984, ef ég man rétt, vegna meints áhuga Alcans á uppbyggingu áliðjuvers hér á landi. Samkvæmt minni söguþekkingu strandaði það mál ekki á innlendum stjórnmálaöflum, það strandaði á því að viðkomandi erlenda fyrirtæki kippti að sér höndunum í málinu að því er þeir sögðu vegna aðstæðna á markaði á ósköp svipaðan hátt að ég held og var að gerast nú á síðasta ári. Ég held því að hæstv. ráðherra verði að útskýra þessi ummæli sín aðeins betur. --- Ég endurtek það, ég held að hæstv. ráðherra verði að útskýra þessi ummæli sín aðeins betur því þetta eru stór orð.
    Maður skyldi þá ætla, miðað við þessi stóru orð, að í ráðherratíð hæstv. núv. iðnrh. hefði verið unnið að þessu þannig að menn hefðu eitthvað í hendi. En ég hef ekki komið auga á það og ég held að það sé ekki vegna þess að einhverjir slæmir stjórnmálamenn hafi verið að þvælast fyrir honum. Mér finnst þetta því vera ansi billeg skýring og þarna hafi hæstv. ráðherra hlaupið aðeins kapp í kinn og farið aðeins fram úr sjálfum sér í málflutningnum. E.t.v. og sjálfsagt er það rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að hæstv. iðnrh. sé mannlegur eins og við hin.