Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:22:00 (4458)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það kom mér ekkert mjög á óvart að hæstv. iðnrh. skyldi svara fyrirspurn minni um hvenær þeirri beiðni um skýrslu frá þingmönnum Alþb., sem lögð var fram mjög snemma í október, yrði svarað, það kom mér ekki á óvart að hann skyldi svara þeirri fyrirspurn þannig að hann mundi svara henni. Ég hef alltaf gengið út frá því að hæstv. ráðherra mundi svara beiðninni um skýrslu og leggja hana fram. Þannig að spurningin, sem ég lagði fyrir ráðherrann og vantar enn svarið við, var öllu heldur sú, hvenær mun skýrslan koma? Hvenær munum við geta farið að búa okkur undir að ræða þetta alvarlega og mikla mál? Það vantar alveg svarið við þeirri spurningu. Það er eiginlega aðalspurningin. Ég vil skora á hæstv. iðnrh. að leggja leið sína hingað á eftir upp í ræðustólinn og uppfræða okkur um það hvenær þessari beiðni um skýrslu verður sinnt. Það er eiginlega það sem við erum á höttunum eftir að fá að vita. Við erum orðnir nokkuð langeygir eftir því að fá þessa skýrslu.
    Ég vil segja það út af orðum hæstv. ráðherra, þar sem hann var að reyna að koma því yfir á Alþb. að þar hafi menn verið eitthvað í veginum fyrir stóriðju, að það er út af fyrir sig nokkuð frjálsleg túlkun á veruleikanum. Auðvitað hefur Alþb. haft áhuga á þeim málum og unnið í þeim og hægt er að nefna dæmi um það. Við getum bara rifjað upp Reyðarfjörð t.d. Auðvitað hefur flokkurinn haft áhuga á þessum málum eins og hverjum öðrum, en menn hafa kannski leyft sér að hafa aðrar skoðanir en t.d. hæstv. iðnrh. á því hvaða skilyrði verða að vera uppfyllt til að það sé fýsilegur kostur. Við höfum sett fram ákveðin skilyrði varðandi umhverfisvernd, varðandi forræði málsins o.s.frv., það er hins vegar ekki andstaða við málið sem slíkt. Það er ekki andstaða við að nýta sér þennan kost þegar við teljum það fýsilegt. Fjarri því. Ég vil vísa þessum orðum hæstv. iðnrh. algjörlega frá. Ég vil bara spyrja: Hver er árangurinn af setu ráðherra Alþfl. í iðnrn. síðan 1987 í stóriðjumálum? Hvar er sá árangur? Hvar er sú stóriðja? Ég sé hana ekki. Ég sé engan árangur. Þannig að það er stutt og laggott svarið við þeim vangaveltum.
    En ég vil, virðulegi forseti, ekki draga umræður um þetta ágæta mál á langinn. Ég hef þegar komið mínum sjónarmiðum að í þessu máli, en mér þótti ástæða til að ítreka þá spurningu sérstaklega sem ég lagði fyrir ráðherrann og geri mér vonir um að ráðherrann sjái sér fært að svara henni.