Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:28:00 (4461)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég varð vitni að þeim stóru tíðindum sem urðu núna áðan og hv. 5. þm. Vestf. gerði að umtalsefni, sem í raunininni marka má segja alveg kaflaskil í iðnaðarsögu þessa þings, að hæstv. iðnrh. hefur svarað spurningu, hvorki meira né minna og að viðstöddum formanni iðnn. --- og kannski vegna þess að hann gekk í salinn.
    Við erum búin að bíða lengi eftir því að fá svör við þeim spurningum sem bornar eru fram í skýrslubeiðni sem var lögð fram í októbermánuði og ég vænti þess að það sé á hreinu að skýrslan verði

lögð fram fyrir lok þessa mánaðar og hún komi síðan til umræðu, stefna í iðnaðarmálum komi síðan til umræðu vegna þess að það eru auðvitað ýmsir þættir í málflutningi hæstv. iðnrh. sem er óhjákvæmilegt að ræða miklu nánar en unnt er að gera á þessum kvöldfundi og þó alveg sérstaklega eitt atriði og það er það að hann hafi í raun og veru ekki komið neinu fram í iðnaðarmálum vegna þess að Alþb. hafði verið með honum í ríkisstjórn.
    Ja, miklir menn erum vér, Hrólfur minn --- var einu sinni kveðið fyrir vestan þaðan sem iðnrh. er ættaður, eins og fleiri. Staðreyndin er auðvitað sú að eftir núv. hæstv. iðnrh. liggur í raun og veru ekkert í iðnaðarmálum nema verulegur haugur af blaðaúrklippum og skjölum undirrituðum um að álver sé að koma. Það er framlag til iðnaðarins af hálfu hæstv. núv. iðnrh. Í rauninni liggur ekkert annað fyrir og það er auðvitað mjög dapurleg niðurstaða með hliðsjón af því hvernig ástandið er hér í atvinnumálum einmitt um þessar mundir. Við hefðum akkúrat núna þurft á því að halda að vera með þróttmikla iðnaðar- og atvinnumálastefnu.
    Þetta hafa auðvitað fleiri séð en við alþýðubandalagsmenn, sem fluttum þetta mál í upphafi þings í haust, m.a. hv. 17. þm. Reykv. sem flutti í þingflokki Alþfl., að sögn DV, sérstaka tillögu um átak í atvinnumálum í vetur þar sem var hreyft mörgum álitlegum málum sem hann hafði lært af okkur í Alþb. fyrr á öldinni, meðan hann var í eðlilegum félagsskap. Margar prýðilegar tillögur af ýmsu tagi. Hins vegar hefur hann ekki flutt þessar tillögur á Alþingi heldur í þingflokki Alþfl. sem er eins og kunnugt er samkvæmt þingsköpum ekki sjálfstæð málstofa til að leggja fram tillögur á Alþingi, hvorki frv., þáltill., fyrirspurnir, né skýrslubeiðnir. En ef hæstv. iðnrh. heldur að hann hafi ekki komið neinu fram í iðnaðarmálum vegna þess hvað við höfum verið þversum í Alþb. þá kannski sýnir það betur en margt annað að ráðherrann hefur verið og er algjörlega á villigötum í allri sinni iðnaðarstefnumótun.
    Staðreyndin er auðvitað sú að við alþýðubandalagsmenn tókum þátt í því á síðasta kjörtímabili að reyna að þróa þann möguleika að hér yrði reist stóriðjuver á Íslandi. Við áttum fulla aðild að því máli með ýmsum hætti og lögðum á það áherslu að þar yrði tilteknum skilyrðum fullnægt. Við hvöttum til þess að menn héldu á því máli af varkárni en myndarskap. Því miður bar hæstv. iðnrh. ekki gæfu til þess að halda þannig á þessum málum og niðurstaðan varð sú að það eru brostnar vonir um allt land, á Reyðarfirði, á Akureyri, en þó verst á Suðurnesjum, í kjördæmi hæstv. ráðherra, þar sem atvinnuleysingjar eru fleiri miðað við íbúafjölda heldur en víðast hvar annars staðar á landinu einmitt um þessar mundir. Það er talið að á Suðurnesjum einum séu 600 atvinnuleysingjar í 15.000 manna byggðarlagi. Það jafngildir því að í Reykjavík og nágrenni væru 6.000 atvinnuleysingjar.
    Ég heyrði það haft eftir Guðmundi J. Guðmundssyni er hann var spurður að því af manni einum úr Keflavík fyrir nokkrum dögum: Hvernig heldur þú að ástandið væri í Reykjavík ef það væru 6.000 atvinnuleysingjar í Reykjavík? Guðmundur J. sagði: Það væri uppreisnarástand í Reykjavík. En þannig er ástandið nú í kjördæmi hæstv. iðnrh. að 600 atvinnuleysingjar eru á Suðurnesjum og það er ekki gert ráð fyrir að þeim fækki á næstunni, sögðu mér forráðamenn þar suður frá í dag, heldur að þeim fjölgi. Þetta sannar auðvitað að ekki hefur verið haldið með eðlilegum hætti á atvinnumálastefnu og iðnaðarstefnu á undanförnum árum af hæstv. iðnrh. og ber auðvitað að gagnrýna það harðlega þegar stjórnmálamenn gera sér leik að því að blekkja fólk í heilu landshlutunum með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. gerir. Þess vegna er það auðvitað hans sök hvernig komið er en ekki Alþb., sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var svo vinsamlegur að taka upp hanskann fyrir fyrr í kvöld, þó hann sé nú í Framsfl., eins og hæstv. iðnrh. orðaði það, hvort sem orðin sem iðnrh. mælti eru forspá um að hv. þm. sé að flytja sig í annan flokk eða ekki. Það skal ég ekkert um segja. Það hafa framsóknarmenn oft gert, eins og kunnugt er og sumir þeirra lent í réttum flokkum að lokum eins og einnig er kunnugt. ( ÖS: Ekki allir.) Margir.
    Ég tel að nauðsynlegt sé að undirstrika það, herra forseti, að gefið hefur verið fyrirheit um að skýrslan verði birt fyrir lok þessa mánaðar og við alþýðubandalagsmenn munum knýja á um að hún verði tekin til umræðu, þ.e. skýrsla sem á að fjalla um þróun og stöðu íslensks iðnaðar. Fyrir utan þessa skýrslu liggur fyrir frv. í þinginu frá okkur þremur þingmönnum í Alþb. um þróunarátak í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Nauðsynlegt er að það frv. fáist einnig rætt hið fyrsta.