Kolbeinsey

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:05:00 (4466)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég leyfi mér að binda vonir við það að allir séu svo sammála þessari till. að það þurfi ekki að harma það þó að hún taki ekki langan tíma í umræðum. Ég minni á það aftur að till. er flutt af þingmönnum úr öllum flokkum og auk þess leyfi ég mér að treysta því að efnislega hljóti menn að vera því sammála að á þessu máli þurfi að taka.
    Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir innlegg hans. Það er rétt sem hann nefndi og ég gat reyndar um að till. frá 1982 gengur auðvitað í mjög svipaða átt þó að segja megi að hér sé um að ræða ákveðnari kröfu um aðgerðir og það innan tilsettra tímamarka. Á þeim tíma þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson var að hreyfa þessu máli í byrjun níunda áratugarins voru menn auðvitað mun lakar á vegi staddir hvað allar upplýsingar snertir og þá var nánast öll undirbúningsvinna og könnunarvinna eftir. Hún komst á skrið og sérstaklega árið 1985 eins og ég nefndi áður, en því miður lá þetta mál síðan algerlega niðri þangað til ég fór að grafast fyrir um stöðu þess í samgrn. snemma árs 1989. Ég treysti á stuðning hv. þm. og annarra við að tryggja að það sofni ekki aftur værum svefni í jafnmörg ár og þarna varð raunin á.
    Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan og undirstrika að ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt að menn átti sig á því að ekki er á vísan að róa með að menn hafi mjög langan tíma þarna til einhverra aðgerða. Það er alveg ljóst að eyðing eyjarinnar gerist í stökkum, væntanlega með því jafnvel að það falli stórar blokkir úr hatti eyjarinnar niður á sökkulinn í kringum hana. Þessu valda m.a. þær jarðfræðilegu aðstæður að veikleikalag gengur í gegnum eyjuna nokkrum metrum undir sjávarmáli og getur þess vegna hrunið úr henni í stórum stökkum.
    Varðandi það sem hv. þm. nefndi um rannsóknir Þjóðverja á þessu svæði er það mikið rétt að Þjóðverjar hafa verið þarna með nokkrar rannsóknir og íslenskir jarðvísindamenn og aðrir vísindamenn hafa fylgst upp að vissu marki með þeim rannsóknum, jafnvel tekið nokkurn þátt í þeim. Þannig veit ég fyrir víst að menn frá Hafrannsóknastofnum, þar á meðal hafsbotnsjarðfræðideild Hafrannsóknastofnunar, mínum gamla vinnustað reyndar, hafa eitthvað fylgst með því og væntanlega sömuleiðis sérfræðingar frá Orkustofnun. Að hve miklu gagni þær upplýsingar síðan mega verða við þetta álitamál, sem snýr að varðveislu eyjarinnar, þori ég ekki að fullyrða um, en að sjálfsögðu er skynsamlegt og rétt að afla þeirra gagna sem fáanleg eru og draga saman. Það má vel vera að upplýsingar, t.d. um gerð hafsbotnsins á nágrannasvæðum við eyna, komi að einhverjum notum. Þó verða væntanlega fyrst og fremst jarðlagagerð sjálfrar eyjarinnar ásamt með sjómælingum í kringum hana aðalgögnin í vinnu manna að því að gera áætlun um styrkingu á henni. En að sjálfsögðu á að halda þeim upplýsingum til haga og safna þeim saman í þessu skyni eins og öllum öðrum upplýsingum sem að gagni mega verða.
    Ég hvet þá hv. þm. sem nokkurn áhuga hafa á þessu máli að fara í gegnum þau fskj. sem með till. eru. Ég held að það eigi ekki að vera mönnum neitt nema skemmtun að fara aðeins í gegnum þau og átta sig á því um hvaða mál er að ræða. Ég bendi t.d. á kort aftast í fylgiskjalabunkanum þar sem annars vegar er um að ræða kort af íslensku efnahagslögsögunni sem sýnir skyggt það svæði sem tilheyrir Kolbeinsey í þessu samhengi. Þar er og að finna ljósmynd af eyjunni með þeim mannvirkjum sem þar eru nú komin en það er nyrsti flugvöllur Íslendinga. Rétt er að taka fram vegna þess sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði hér um veðurathugunarstöð eða vísindarannsóknir að það mannvirki, þyrlulendingarpallurinn, þjónar í raun og veru fjölþættum tilgangi. Hann er í fyrsta lagi að sjálfsögðu nauðsynlegur sem lendingarstaður í eyjunni til þess að þar sé hægt að athafna sig. Í öðru lagi var það haft í huga þegar hann var

steyptur, m.a. þvert yfir stærstu sprunguna sem liggur í gegnum eyjuna, að tilkoma pallsins og þeirrar steypu sem þar rann niður í sökkul eyjarinnar mundi verða til að styrkja hana. Í þriðja lagi eru innbyggð í pallinn þau sjómerki sem reynslan sýnir að er ákaflega erfitt að hemja á eyjunni nema þau séu með einhverjum hætti innbyggð. Í fjórða lagi eru svo mótuð ofan í pallinn allmörg og stór hólf sem þannig voru úr garði gerð að í þeim má koma fyrir margs konar búnaði. M.a. var hugsunin sú að lítil sjálfvirk veðurathugunarstöð, þ.e. sá búnaður sem notaður er til sendinganna og skynjunar, gæti komist þar fyrir. Því eru í raun og veru fyrir hendi aðstæður nú þegar í þeim mannvirkjum sem í eyjunni eru til þess að staðsetja þar slíkan búnað. Það væri fullkomlega ástæða til þess að kalla til Veðurstofuna og fleiri slíka aðila til ráðslags um það hvort ekki sé hægt að hefja einhverja starfsemi af því tagi nú þegar.
    Herra forseti. Ég vona að aðstaða skapist til þess á þessu þingi að afgreiða þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt málefnisins vegna að ýta aðeins við því. Því miður læðist sá grunur að mér að þetta gæti haft tilhneigingu til að sofna hálfgerðum þyrnirósarsvefni á nýjan leik ef málið verður ekki sett í alveg ákveðinn farveg fyrir frumkvæði Alþingis. Þar held ég að væri vænlegast að fela framkvæmdarvaldinu með alveg skýrum fyrirmælum að vinna þá áætlun sem hér um ræðir og leggja hana helst fyrir þingið til staðfestingar á þessu ári þannig að það verði alveg á hreinu hvaða aðgerðir menn ætla sér á næstunni í þessu sambandi.