Kennsla í réttri líkamsbeitingu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 23:20:00 (4468)

     Valgerður Gunnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú þáltill. sem hér er lögð fram miðar að auknu forvarnastarfi gegn álagssjúkdómum og er það fagnaðarefni. Á síðustu áratugum hefur sú stefna verið allsráðandi í heilbrigðismálum okkar Íslendinga sem og fleiri vestrænna þjóða að leggja áherslu á lækningu sjúkra. Við höfum einblínt á sjúkdóma en lagt litla áherslu á heilbrigði. Sjúkraþjónusta hefur gleypt svo til alla fjármuni sem veittir eru til heilbrigðisþjónustunnar. Um 70--80% af heildarfjármununum fer til reksturs sjúkrahúsa. Árið 1986 fóru um að bil 95% af öllum framlögum til heilbrigðisþjónustu við íbúa Reykjavíkur, eða samtals 3.600 millj., til greiðslu á kostnaði við sjúkrahúsdvöl, lyfjanotkun, sérfræðihjálp og tannlækningar. Aðeins 5% eða litlar 200 millj. fóru til reksturs Heilsuverndarstöðvarinnar, heimilislækninga, heilsugæslustöðva, heimahjúkrunar og heilbrigðiseftirlits. Svona hefur skiptingin verið milli heilsuverndar og sjúkraþjónustu og kostnaðurinn eykst stöðugt án þess að árangur í samræmi við kostnaðaraukninguna náist því þótt nútímalæknavísindi hafi haft áhrif til að lengja líf manna og auka lífslíkur þeirra sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum táknar það ekki að heilsufar sé almennt betra heldur fjölgar þeim sem lifa með sjúkdóma. Það má e.t.v. segja að nú á dögum sé hinn mikli vöxtur heilbrigðisþjónustunnar í velferðarþjóðfélaginu tákn um versnandi heilsufar frekar en nokkuð annað.
    Þær forvarnaaðgerðir sem framkvæmdar eru í dag, svo sem ónæmisaðgerðir og mæðra- og ungbarnavernd, hafa þó skilað mjög miklu af þeim árangri sem náðst hefur undanfarna áratugi. Það er því þörf á því að skoða hvert stefnir í heilbrigðismálum og setja kúrsinn upp á nýtt. Heilbrigðisyfirvöldum víða um lönd er að verða æ ljósara að aðeins með því að snúa sér af alefli að forvörnum er hægt að fækka nýjum sjúkdómstilfellum og bæta heilsu þegnanna.
    Alþingi hefur sýnt að það hefur skilning á þessu því að fyrir réttu ári síðan var samþykkt hér í þinginu þál. um íslenska heilbrigðisáætlun þar sem rík áhersla er lögð á forvarnastarf. Nú er í undirbúningi á vegum heilbrrn. framkvæmdaáætlun fyrir þessa heilbrigðisáætlun og getur tillaga um kennslu í réttri líkamsbeitingu, sem hér er til umræðu, vel fallið inn í þá framkvæmdaáætlun. Álagseinkenni frá hreyfi- og stoðkerfi líkamans, þ.e. beinum, vöðvum og sinum, eru algeng hér á landi eins og fram kemur í rannsókn Vinnueftirlits ríkisins sem vitnað er til í grg. með till. Í þeirri rannsókn kom í ljós að 8% kvennanna sem spurðar voru og 3% karlanna voru óvinnufær lengur en átta daga á síðastliðnum tólf mánuðum vegna óþæginda frá herðum eða öxlum. Miklu stærri hópur hafði leitað til læknis eða sjúkraþjálfara vegna svipaðra einkenna. Það er því augljóst að mjög háar fjárhæðir tapast vegna álagseinkenna og er orðið löngu tímabært að taka á þessu máli af skynsemi.
    Þó að litlar rannsóknir séu til um hver kostnaður vegna álagseinkenna er hér á landi, þá benda kannanir Vinnueftirlitsins tvímælalaust til þess að tíðni þeirra sé ekki minni hjá okkur en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þar eru til nákvæmar upplýsingar um umfang vandans og kostnað. Í Noregi er t.d. áætlað, samkvæmt könnunum sem voru gerðar fyrir undirbúning norskrar heilbrigðisáætlunar fyrir árið 2000, að 35% af öllum fjarvistum á vinnumarkaðinum væru vegna einkenna frá hreyfi- og stoðkerfi og 58% af öllum sjúkdómum hjá fólki á vinnumarkaðinum væru vegna sömu einkenna.
    Í Svíþjóð voru árið 1989 greiddar gífurlegar fjárhæðir í sjúkradagpeninga og örorkubætur vegna

atvinnusjúkdóma frá stoð- og hreyfikerfi samkvæmt upplýsingum frá Arbetsmiljöfonden. Þetta voru alls 53 milljarðar sænskra króna sem mundi svara til, ef við hefðum sams konar kerfi og Svíarnir, að við greiddum 16 milljarða ísl. kr. á ári.
    Álagseinkenni má í mörgum tilfellum fyrirbyggja með réttum aðgerðum. Þar má nefna fræðslu um byggingu líkamans, kennslu í vinnustellingum og réttri líkamsbeitingu, góða og rétta hönnun á vinnuaðstöðu og öllum aðbúnaði á vinnustöðum, í skólum og heimilum svo að eitthvað sé nefnt. Tvö meginatriði forvarnastarfs í þessu sambandi eru vinnuvernd á vinnustöðum eða starfsmannavinnuvernd eins og það hefur verið nefnt og vinnuvernd í skólum og kennsla í réttri líkamsbeitingu er einmitt einn þáttur í henni. Eðlilegast væri að sjúkraþjálfarar væru ráðnir í heilsugæsluumdæmi og sinntu þessu forvarnastarfi í tengslum við heilsugæslustöðvar. Reyndar er gert ráð fyrir þessu í lögum um heilbrigðisþjónustu en í þeim segir orðrétt í 17. gr., með leyfi forseta:
    ,,Ráða skal sjúkraþjálfara til starfa við heilsugæslustöðvar H2. Í Reykjavík skal vera a.m.k. einn sjúkraþjálfari í hverju heilsugæsluumdæmi.``
    Því miður hefur þetta ekki komist til framkvæmda enn. Í dag er enginn sjúkraþjálfari ráðinn að heilsugæslustöð til þess að sinna forvarna- og heilsuverndarstarfi í skólum eða á vinnustöðum þar sem engu fé hefur verið veitt til að hefja þá starfsemi. En vilji Alþingis birtist þó skýrum stöfum í heilbrigðisáætluninni. Þar segir í 3. lið, um heilsugæslustöðvar og sjúkrastofnanir, með leyfi forseta:
    ,,Leitast skal við að auka samstarf heilsugæslunnar við aðra aðila, svo sem fræðsluyfirvöld, félagsmálastofnanir og íþróttahreyfinguna í því skyni að auka heilsuvernd og heilsurækt.``
    Í kafla um rannsóknir og kennslu, í 3. mgr. 29. liðar, stendur enn, með leyfi forseta:
    ,,Námsskrár grunn- og framhaldsskóla og skóla heilbrigðisstétta skal endurskoða með tilliti til þeirrar áherslu sem leggja skal á heilsugæslu og heilbrigðisfræðslu.``
    Það er orðið mjög brýnt að hefja aðgerðir sem miða að bættra heilsu þjóðarinnar með fyrirbyggjandi starfi og skólarnir eru rétti staðurinn til að byrja á. Ég fagna því fram kominni tillögu og bendi á að framkvæmd hennar, laga um heilbrigðisþjónustu og íslenskrar heilbrigðisáætlunar fer saman.