Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 13:45:00 (4475)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs um þingsköp er fundargerð sem ég fékk nú nýverið upp í hendurnar frá skrifstofu EFTA. Þar er sagt frá fundi sem haldinn var þann 21. febr. sl. í Strassborg og var sameiginlegur fundur forseta þjóðþinga

EFTA-ríkjanna. Það sem vakti athygli mína í þessari fundargerð eru innlegg hæstv. forseta okkar í umræðuna. Mér fannst ástæða til að vekja athygli þingmanna á þessu og eins að spyrja forseta hér ákveðinna spurninga.
    Þannig er að í fundargerðinni kemur fram að af Íslands hálfu sé reiknað með því að það muni taka Alþingi fjórar til sex vikur að aðlaga um 200 lagaákvæði eða setja inn í íslensk lög, og þeirri vinnu eigi að vera lokið fyrir lok 115. þings og það 30. sept.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. forseta á hverju hún byggi það mat sitt að þessi vinna muni aðeins taka fjórar til sex vikur eins og segir í þessari fundargerð. Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. forseta hvenær þess sé að vænta að þingmenn fái einhverjar upplýsingar um það hvernig starfi þeirra verður háttað í sumar ef --- og ég undirstrika auðvitað ef --- EB-dómstóllinn blessar samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem nú er þar til umfjöllunar.
    Mér finnst orðið tímabært að við förum að gera okkur einhverja grein fyrir þessu hér á Alþingi og vil því spyrja þessara spurninga.