Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 13:55:00 (4482)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég tel að það hafi verið eðlilegt að hreyfa þessu máli hér undir þingsköpum. Ég er ekki að skorast undan því að við formenn þingflokka ræðum við forsætisnefndina um tilhögun þinghaldsins og hvernig þetta verkefni yrði unnið, en ég held að það sé nauðsynlegt að fá munnlega skýrslu frá ríkisstjórninni um málið sem allra fyrst. Og þar komi þá fram hvernig ríkisstjórnin hugsar sér tæknilega að stuðla að því að málið verði afgreitt hér á Alþingi. Okkur er mjög nauðsynlegt að fá lista yfir þær lagabreytingar sem hér er verið að ræða um.
    Mér er ekki ljóst á hverju hæstv. forseti byggir þá skoðun sína að þessi vinna taki ekki nema fjórar til sex vikur og væri gott að fá skýringar á því. Ég vil láta það koma fram að ég tel óviðkunnanlegt að við fréttum þessi þröngu tímamörk fyrst frá útlöndum. Það hefði verið betra að það hefði borið öðruvísi að.
    Menn eru að velta því fyrir sér hvort yfirleitt verði af þessari vinnu hér í þinginu. Eftir þeim fregnum sem ég hef bestar reikna menn með því að Evrópudómstóllinn geri ekki athugasemdir við það uppkast sem nú er til athugunar hjá honum og þar með verður væntanlega að ganga í þessa vinnu hér.