Seðlabanki Íslands

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 13:59:00 (4483)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við brtt. á þskj. 482. Þessi brtt. er á þskj. 567 og flm. með mér eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Brtt. er á þann veg að orðin ,,svo sem evrópsku mynteininguna (ECU) og sérstökum dráttarheimildum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR)`` í 2. tölul. falli brott.
    Ástæðan fyrir því að við þingmenn, sem erum fulltrúar minni hlutans í efh.- og viðskn., flytjum þessa tillögu við brtt. sem við höfðum skrifað undir með fyrirvara er sú að við teljum að með ummælum sínum hér á Alþingi á mánudaginn þegar þetta mál kom til 2. umr. hafi hæstv. viðskrh. breytt verulega þeim forsendum sem voru fyrir okkar undirskrift. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ætlun ríkisstjórnarinnar að tengja íslensku krónuna við ECU og að ráðherra liti þannig á að með samþykkt þessa frv. væri Alþingi í raun að gefa umboð sitt til slíks. --- Ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið en við getum farið yfir þetta þegar umræðurnar koma úr prentun en á einhvern þennan hátt tók hæstv. ráðherra til orða.
    Þetta er út af fyrir sig slæmt vegna þess að það var algjör samstaða um það í nefndinni að það væri æskileg breyting að koma hér á gjaldeyrismarkaði með fráviksmörkum og í allri umfjöllun nefndarinnar var það aðalatriði málsins. Það kom reyndar fram í viðtölum við seðlabankastjóra að það þyrfti engar lagabreytingar til breytinga á gengiskörfunni og þess vegna væri hægt að tengja krónuna við ECU ef ríkisstjórnin teldi það æskilegt, sem ég dreg reyndar í efa, á grundvelli núgildandi laga. En eftir að forsendur höfðu breyst á þennan hátt og þar sem fyrirvarar okkar beindust m.a. að því að við teldum að með þessari lagabreytingu væri á engan hátt verið að festa þá ákvörðun í sessi að tengja íslensku krónuna við ECU leggjum við fram þessa brtt.
    Það má kannski segja að flest það sem skiptir máli um þá breytingu sem verið er að gera á lögum í þessa veru hafi komið fram í umræðunni á mánudaginn var, en ég ætla þó að bæta örfáum orðum við og hnykkja á þeim atriðum sem ég tel að þarna skipti mestu máli. Ég tel að ef Seðlabankinn hefur þau tök á gengismálum sem nauðsynleg eru, ef hann hefur afl til þess og setur sér þau markmið, þá eigi þessi breyting að geta leitt til þess að gengið á hverjum tíma verði skráð nær hagsmunum útflutningsatvinnuveganna heldur en hefur verið undangengið. Og ef skilyrði þeirra versna, þá láti gengið undan innan þess ramma sem reglur leyfa á hverjum tíma, og ég vitna þá í orð hæstv. viðskrh. í umræðunni á mánudaginn var að væntanlega yrðu fráviksmörk hjá okkur vegna eðlis okkar atvinnustarfsemi einhvers staðar í kringum 6%, upp undir 6% til eða frá.

    Þetta tel ég vera höfuðatriðið í þessu og það væri mjög æskilegt að með þessari breytingu væri hægt að vinna gengismálin á betri grunn án þess að menn séu að taka þar nokkrar kollsteypur. Það getur út af fyrir sig ekki gengið til lengdar að halda verðlagsþróun hér innan lands niðri á kostnað útflutningsatvinnuveganna með því að fjármagna innflutning með aukinni lántöku. Þetta staðfestir kannski með öðru það sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt að undanförnu að það sem skiptir mestu máli gagnvart stöðu undirstöðuatvinnuveganna er að það náist jöfnuður í viðskiptum við útlönd. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hæstv. ríkisstjórn hefði e.t.v. mátt huga meira að þeim þætti en ekki einbeita sér alveg eins mikið að ríkissjóðshallanum og gert hefur verið á starfstíma ríkisstjórnarinnar fram að þessu.
    Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi ekki frekari rökfærslu til við þessa brtt. og ég læt máli mínu lokið.