Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:08:00 (4484)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það skýrir nú sennilega smávægilegan misskilning sem um þetta er að hv. frsm. efh.- og viðskn. hefur væntanlega mælt fyrir þessum málum báðum í einu eða hvoru á eftir öðru. (Gripið fram í). Jæja, en hvað sem því líður þá rak mig ekki minni til þess að búið væri að mæla fyrir nema frv. um Seðlabankann, því sem hér var til umfjöllunar áðan og ég átti satt best að segja von á því að frsm. ætti eftir að mæla fyrir nál. Þetta stafar af þeim heldur hvimleiða sið, herra forseti, að mælt er fyrir málum jafnvel vikum áður en ætlunin er að hafa umræðuna um þau eða aðstæður eru til að halda áfram umræðunni um þau. Ég verð að segja alveg eins og er, reynslunni ríkari eftir að hafa séð þetta nokkrum sinnum gert hér í vetur, þá get ég ekki mælt með því að það sé iðkuð sú íþrótt trekk í trekk að slíta þannig með öllu sundur umræður um málin.
    En þetta frv., 32. mál á þskj. 32, varðar breytingar á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála sem eru tiltölulega einfaldar í sniðum, þ.e. að 4. gr. laga nr. 63/1979 verði breytt í þá veru að afnema þá skilaskyldu erlends gjaldeyris í grófum dráttum sem enn er við lýði, en hefur reyndar verið losað nokkuð um að undanförnu, og færa vald í þeim efnum alfarið yfir í hendur viðskrn. sem setja skuli um það reglur hvernig með þessi sölumál og skilaskyldu á erlendum gjaldeyri skuli farið.
    Þessi breyting er liður í því að undirbúa markaðsviðskipti með gjaldeyri sem fram hefur komið, m.a. í umræðum um næsta dagskrármál hér á undan, að er síðan þáttur í þeirri breytingu á gengisskráningu og meðferð þeirra mála allra sem til umræðu eru.
    Það er skemmst frá að segja að afstaða okkar í minni hlutanum er sú sama gagnvart þessu máli og hinu fyrra. Við skrifum undir nál. með fyrirvara og ég vil gera lítillega grein fyrir þeim fyrirvara eins og hann snýr að þessu máli sem er hinn sami og varðandi frv. um Seðlabankann. Fyrirvarinn lýtur fyrst og fremst að því hvernig framkvæmd þessara mála verður hagað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Sömuleiðis má segja að við höfum fyrirvara um stöðu Seðlabankans í þessu sambandi, möguleikar hans til þess að vera sá jafnvægisstillir og vaki viðskipta í þessum efnum sem ætlunin er.
    Sá fyrirvari veit ekki hvað síst að tímasetningum í þessu sambandi og ég verð að segja alveg eins og er að skoðun mín hefur styrkst í þeim efnum að menn ætli sér hér fullmikið, færast fullmikið í fang að hrinda þessum breytingum sumpart í framkvæmd á fáeinum mánuðum. Ég er ekki farinn að sjá það að einhver markaður sem stendur undir því nafni muni hefjast hér með erlendan gjaldeyri á haustdögum. Ég er ekki búinn að sjá hverjir verða viðskiptaaðilarnir á þeim markaði og þó svo hann verði takmarkaður og jafnvel að einhverju leyti lokaður og bundinn við t.d. millibankaviðskipti, þá held ég nú að það sé fullbratt af stað farið að ætla sér ekki nema fáeina mánuði til þess að koma þeim hlutum af stað. Ég vil því ítreka og undirstrika fyrirvara minn gagnvart því að menn ætli sér ekki um of varðandi undirbúning þessara mála.
    Efnislega er hins vegar það að segja að ég held að það sé sjálfsagt mál að fjarlægja úr lögum úreltar hindranir sem eru í vegi þess að þróa hér í áföngum viðskipti með gjaldeyri á markaði og get því eftir atvikum verið efnislega sáttur við þær breytingar á lögunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála sem felast í þessu frv. Það eru þannig fyrst og fremst, herra forseti, tengsl þess við áform ríkisstjórnarinnar að öðru leyti, þar á meðal um margnefnda ECU-tengingu krónunnar, sem hér hefur verið nokkuð til umræðu, sem veldur því að ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara.
    Ég vona, herra forseti, að við þurfum ekki að upplifa sömu hlutina í þessu máli eins og hinu síðasta, að hæstv. viðskrh. leggi sig í framkróka um að barna afgreiðslu þingsins á því og reyna að lesa meira út úr henni heldur en efni standa til. Það er alveg ljóst að ég sem nefndarmaður í efh.- og viðskn. hefði ekki skrifað undir nál. og verið samferða meiri hlutanum um afgreiðslu þessa máls ef það hefði hvarflað að mér að til stæði að leggja í afgreiðslu þess einhverja dýpri merkingu varðandi pólitísk áform hæstv. ríkisstjórnar um ECU-tengingu krónunnar eða nánari samvinnu við efnahagsheildina í Evrópu. Málið var lagt upp sem skipulagsbreyting, sem breytt framkvæmd og tilhögun þessara mála, sjálfrar sín vega en ekki annarra hluta, og það er auðvitað með öllu óþolandi að eftir á sé reynt að leggja aðra merkingu í hlutina en kynntir hafa verið í upphafi fyrir mönnum í þinginu.
    Ef hæstv. viðskrh. vill bera undir þingið stefnu ríkisstjórnarinnar um að tengja íslensku krónuna við ECU á næsta ári, þá á hann að gera það með heiðarlegum hætti, með því að leggja þá ákvörðun fyrir. Ef hann er hér hins vegar að standa ósköp einfaldlega fyrir ákveðnum praktískum breytingum á löggjöf um þessi efni til þess að unnt sé að aðlaga framkvæmd þessara mála að breyttum aðstæðum þá er það annar hlutur. Og það á ekki að blanda saman með óheppilegum hætti eins og ella væri pólitískum ákvörðunum annars vegar og tæknilegum lagfæringum á framkvæmd þessara mála hér uppi á Íslandi hins vegar. Ég hef litið svo á að það væri þokkaleg efnisleg samstaða um það að tímabært væri að gera tilteknar breytingar, bæði á lögum sem varða skilaskyldu og sölumeðferð erlends gjaldeyris og einnig hvað snertir Seðlabankann varðandi gengisskráninguna, en það er alveg augljóst mál að það gegnir allt öðru máli um pólitískar ákvarðanir um nánari tengsl okkar að þessu leyti, t.d. við Evrópumyntina.
    Þess vegna, herra forseti, vil ég strax hér í byrjun gera skýran þennan fyrirvara minn og ég endurtek það að ég treysti því að menn geti orðið sáttir á að láta við það sitja að á ferðinni sé skipulagsbreyting og tæknileg breyting á framkvæmd þessara mála og annað ekki. Pólitískar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar eða áform eru svo annar handleggur.
    Ég hefði talið ástæðu til að hæstv. viðskrh. hefði einnig farið aðeins yfir það með tilliti til þess að nokkuð er umliðið síðan 1. umr. fór fram um þetta mál hvar frekari undirbúningur framkvæmda í þessum efnum er á vegi staddur og vísa ég þá aftur til heimsóknar bankastjóra Seðlabankans til efh.- og viðskn. sem upplýstu m.a. að áform að þessu leyti stæðu til að hefja þessa starfsemi, viðskipti með erlendan gjaldeyri á markaði, þegar á hæsta hausti. Og væntanlega hafa menn þá notað tímann sem liðinn er frá því að málið var lagt fram og fram að þessu til þess að hefja einhvern undirbúning að því að svo geti orðið.
    Herra forseti. Í trausti þess að stuðningur minn við þetta mál verði ekki mistúlkaður þá stend ég við hann og mun greiða því atkvæði eins og undirskrift mín undir nál. ber með sér, en ég áskil mér rétt til þess að breyta því ef annað verður upp á teningunum.