Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:17:00 (4486)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. 4. þm. Norðurl. e. að stuðningur hans við þetta frv. verður á engan hátt affluttur eða misskilinn. Hann verður tekinn fyrir það sem hann er, stuðningur við þá breytingu á skilaskyldu á gjaldeyri sem nauðsynleg er til þess að hér megi gefa markaðsöflum áhrif á daglegt gengi krónunnar innan ákveðinna marka. Hins vegar, um leið og ég segi þetta, þá andmæli ég því harðlega sem hv. þm. lét að liggja að ég hefði lagt þetta mál og það sem næst var á undan á dagskránni öðruvísi en heiðarlega fyrir. Ég leyfi mér að endurtaka að það er fjarri öllu lagi að halda því fram að ég hafi komið aftan að hv. nefndarmönnum í efh.- og viðskn. Alþingis þegar ég lýsti því eins og ég gerði í framsögu minni fyrir báðum þessum málum við 1. umr. um þau að þessar breytingar, nauðsynlegar sem þær væru í sjálfum sér, væru líka nauðsynleg forsenda þess að tengja mætti íslensku krónuna við evrópsku mynteininguna ef ákvörðun yrði um það tekin. Hins vegar er þingið alls ekki að taka ákvörðun um þá tengingu heldur eingöngu að gera þessar tæknilegu breytingar á gengistilhöguninni. Skýrara getur þetta ekki verið og það er með öllu ósatt að ég hafi á einhvern hátt komið hér í ræðustól í þinginu og gert öðruvísi grein fyrir málinu í meginatriðum heldur en gert var við 1. umr. málsins.
    Þetta vil ég láta koma skýrt fram um leið og ég þakka stuðning nefndarmanna í efh.- og viðskn. við þetta frv. og hið fyrra, en ég vona reyndar að nokkrir þingmenn muni kalla aftur brtt. sem þeir hafa flutt við hið fyrra frv.