Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:20:00 (4487)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur haft gott af nætursvefninum. Málflutningur hans hér núna varðandi þetta efni var miklu skýrari og yfirlýsing hans út af fyrir sig fullnægjandi varðandi það hvað felst í afgreiðslu Alþingis á þessu máli. Og ég vænti þess að þegar þessi ræða hæstv. viðskrh. verður komin í þingtíðindin, þá verði ekki frekari tilraunir uppi af neinna hálfu til að mistúlka það neitt eða túlka yfir höfuð, svo skýr sem sú yfirlýsing var að hér felst í afgreiðslu Alþingis ekki á nokkurn hátt ákvörðun sem tengist ECU-tengingu krónunnar eða öðrum áformum hæstv. ríkisstjórnar. Hér er um tæknilegar og skipulagslegar lagfæringar að ræða á lögum um skilaskyldu erlends gjaldeyris.
    Varðandi hitt atriðið þá fannst mér ræða hæstv. viðskrh. einmitt vera rökstuðningur fyrir því að það er skynsamlegt að samþykkja þá brtt. sem við þrír hv. þm. stjórnarandstöðunnar höfum flutt til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum hvað Alþingi er með breytingum sínum á lögum um Seðlabankann og lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála að gera að þessu sinni. Og ég hvet hv. þm. til þess að íhuga það vel hvort þeir eru ekki sammála okkur um það að með vísan til þess að álit allra helstu sérfræðistofnana Íslendinga á þessu sviði er að ekki sé tímabært að taka á dagskrá ECU-tengingu krónunnar, þá sé heldur ekki skynsamlegt að Alþingi sé að skáskjóta svona inn í lagatexta fullkomlega að óþörfu og í algjörri merkingarleysi þessu orðskrípi ,,svo sem með ECU-tengingu krónunnar eða SDR`` sem er auðvitað eins og út úr kú og á ekki heima inni í þessum texta sem er að öðru leyti orðinn á þolanlegri íslensku. Ég þakka því hæstv. viðskrh. fyrir hinn efnislega stuðning við það að þessi brtt. verði samþykkt þótt hann kæmist svo í lokin að öfugri niðurstöðu, að hvetja okkur til þess að draga hana til baka.