Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:24:00 (4489)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en ég held að nauðsynlegt sé að það komi alveg skýrt fram hver er ágreiningurinn í þessu máli milli okkar og hæstv. viðskrh. Trúlega væri ágreiningurinn lítill sem enginn ef hæstv. viðskrh. hefði ekki látið í ljós þá skoðun sína að það væri tímabært og hefur jafnvel nefnt dagsetningar í því sambandi hvenær rétt væri að tengja gengi íslensku krónunnar við ECU. Það hefur hæstv. ráðherra gert. Það er hins vegar greinilegt að það er ekki samstaða í ríkisstjórn Íslands um það eins og margt annað. Viðskrh. telur sig vera að fá umboð til þess að tengja gengi íslensku krónunnar við ECU jafnvel innan eins árs ef svo ber undir, jafnvel þótt allar þær skýrslur sem við höfum fengið, m.a. frá Seðlabanka Íslands, vari við því, hér þurfi langan undirbúningstíma. Það er í ljósi þessa, hæstv. viðskrh., sem við getum ekki stutt þetta mál með þeim hætti sem við annars hefðum getað gert. Við teljum það ekki tímabært á þessu stigi að taka þetta mál á dagskrá eða ræða nokkra dagsetningu um tengingu gengis íslensku krónunnar við ECU eins og hæstv. viðskrh. hefur gert í þessum umræðum, væntanlega ekki bara hér mánudaginn heldur strax í upphafi. Þessi ágreiningur kom skýrt fram við 1. umr. málsins og er undarlegt að hæstv. viðskrh. skuli ekki draga úr þessum málflutningi, m.a. í ljósi þeirrar skýrslu sem Seðlabanki Íslands hefur ritað. Þess í stað vill hann halda fast við það jafnvel þótt það hafi komið mjög skýrt fram m.a. hjá hæstv. sjútvrh. að hann sé ekki sammála þessari skoðun viðskrh.
    Annars er hér um mjög merkilega breytingu að ræða. Hér er verið að koma á meira frjálsræði í gjaldeyrisverslun. Það mun væntanlega geta orðið til þess að gengi íslensku krónunnar verði eitthvað sveigjanlegra en hingað til hefur verið miðað við framboð og eftirspurn. Það er því líklegt að gengi krónunnar kunni að breytast ef viðskiptahalli er viðvarandi og mikill nema þá að Seðlabanki Íslands grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir það með því t.d. að taka erlend lán til að grípa inn í sem ekki er líklegt að hægt sé að gera til langframa. Breytingin sem hér er verið að gera efnislega er um margt skynsamleg og ég get stutt hana en ég er algjörlega andvígur því að ræða um tengingu gengisins við ECU með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. hefur hér kynnt. Og ég er hissa á því að hann skuli ekki vilja stuðla að því með meira afgerandi hætti að afgreiða þetta mál í betra samkomulagi við þingið og vil að það sé alveg ljóst að í minni undirskrift undir það nál., sem ég hef ritað undir með fyrirvara, felst enginn stuðningur við þá hugsun að tengja gengi íslensku krónunnar við ECU. Til þess eru engar aðstæður og er rétt að taka það mál á dagskrá þegar aðstæður eru betri til þess.