Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:33:00 (4492)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. viðskrh. vill nú gefa okkur góð ráð og leiðbeiningar um það hvernig við eigum að haga orðum okkar og hvaða afstöðu við eigum að hafa. Það er út af fyrir sig virðingarvert hjá honum að hafa þá umhyggju fyrir þingmönnum hér. Hæstv. viðskrh. las hér að vísu upp úr ræðu sinni en ég er helst á því að hæstv. viðskrh. hafi gefið út fréttatilkynningu um þetta mál. Er það ekki rétt, hæstv. viðskrh., að þar hafi borið á góma dagsetning að því er varðaði tengingu íslensku krónunnar við ECU? Það er eins og mig minni að það hafi orðið nokkur skoðanaskipti milli hans og hæstv. sjútvrh. í þessu sambandi. Það má vel vera að þetta hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni, en ég man ekki betur en hæstv. viðskrh. hafi tekið sterkar til orða að því er varðar málið á öðrum vettvangi. Og það er hæstv. viðskrh. sem fer með þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
    Annars vildi ég fara þess á leit, virðulegur forseti, að þessu máli yrði frestað þannig að við gætum kynnt okkur betur málflutning viðskrh. í þessu máli fyrst hann tekur upp á því að tala um þetta mál með þessum hætti. Ég vil fara þess á leit að þessari umræðu verði frestað og hún tekin upp síðar.