Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:34:00 (4493)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa undrun minni á því hvað er að gerast í þessari umræðu hjá hæstv. viðskrh. Það hefur verið lögð töluverð vinna í það í þinginu á undanförnum vikum, bæði í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallaði og eins í þingflokkunum, að því ég veit, að skapa samstöðu um það stjfrv. sem hér er til umfjöllunar. Nú sýnist mér að hæstv. viðskrh. sé önnum kafinn við að spilla bæði málinu og þessari samstöðu með því að reyna að lesa inn í málið allt aðra hluti en í því eru. Það er að vísu gamalkunnug aðferð sem ég þekki nokkuð frá samskiptum við ráðherrann á öðrum vettvangi en ég ætla ekki að rekja það hér. En það er mjög slæmt þegar sá ráðherra sem flytur mál er að spilla því með þeim hætti sem hann gerði hér. Ef hæstv. viðskrh. er þeirrar skoðunar að það eigi að tengja íslensku krónuna við ECU, þá á hann að koma með það mál alveg skýrt og klárt og vafningalaust inn í þingið en ekki vera að reyna að skáskjóta því stóra máli hér í einhverjum sérstökum aukakrókum í skilningi sínum á þessu frv. Ef ráðherrann er þeirrar skoðunar að þetta sé slíkt framfaramál sem á honum mátti skilja hérna áðan og þeir sem hefðu efasemdir um það væru bara afturhaldssinnar, þá á hann að hafa dug til þess að koma með það mál alveg klárt hingað inn í þingið. Það hefur hann ekki gert. Hins vegar gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um það skömmu eftir að hún tók við að hún ætlaði sér að gera það. Í kjölfarið kom Seðlabankinn með skýrslu, þar sem Seðlabankinn aldrei slíku vant hafði vit fyrir ríkisstjórninni, því í þessari skýrslu Seðlabankans var því eindregið mótmælt að farið væri í ECU-tenginguna með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. hafði talað fyrir og málið var þess vegna allt saman sett á ís.
    Ég vil þess vegna biðja hæstv. viðskrh. að stuðla að því hér að þetta mál verði afgreitt með þeirri samstöðu sem efni standa til en hann sé ekki að spilla því með því að lesa inn í það annað en í því er. Ég vil svo taka undir þau orð hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar að úr því sem komið er fái menn tækifæri til þess að skoða þetta betur áður en umræðan heldur áfram.