Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:39:00 (4496)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú mjög ákveðið fara þess á leit við hæstv. viðskrh. að hann dragi til baka þau ummæli sem hann viðhafði hér áðan um það að við þingmenn styddum þetta mál í orði en síðan væri eitthvað allt annað upp á teningnum. Ég er búinn að halda að minnsta kosti þrjár ræður þar sem ég hef lýst yfir eindregnum stuðningi við meginmarkmið frv. sem er það að koma hér á virkum gjaldeyrismarkaði og frá því hef ég ekki hvikað. Ég vil hins vegar ítreka það að ég tel að fyrirvarar okkar gagnvart ECU-tengingunni hafi verið fullkomlega eðlilegir af tveimur ástæðum. Í ræðu sem hæstv. iðnrh. flutti á iðnþingi í haust sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Tekin hefur verið ákvörðun um að stefna þegar á þessum vetri að myndun virks

gjaldeyrismarkaðar hér á landi. Gerðar verða ráðstafanir til þess að hægt verði að tengja íslensku krónuna við ECU til að staðfesta stefnu stöðugleika í gengi.``
    Hérna er þetta tengt saman þannig að ekki er nokkur vafi á, annars vegar uppsetning virka gjaldeyrismarkaðarins og hins vegar tenging krónunnar við ECU.
    Í öðru lagi vitnaði ég óbeint í ræðu hæstv. viðskrh. frá mánudeginum var þar sem hæstv. ráðherra segir eitthvað á þennan veg: ,,Og ég vil að það komi hér aftur skýrt fram. Þetta er eingöngu hugsað til þess að þingið sé að gefa alveg skýrt umboð til þess að ákveða slíkar breytingar þótt þingið sé ekki þar með að ákveða þær.`` Þetta vísar til fyrri orða hans um evrópsku mynteininguna og SDR. Það eru því alveg borðliggjandi rök fyrir fyrirvara okkar og okkar brtt. um það að þessi setning sé dregin til baka. En það kemur því ekkert við að sá sem hér talar er eindreginn stuðningsmaður þess meginefnis frv. að koma hér á virkum gjaldeyrismarkaði innan ákveðinna marka. Þetta vil ég biðja hæstv. ráðherra að hafa í huga og hugleiða vandlega hvort hann hafi ekki tekið óþarflega mikið upp í sig með orðum sínum áðan þegar hann sagði að ekki fylgdust að orð og hugur okkar þingmanna í þessu máli.