Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:58:00 (4504)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tek viljann fyrir verkið hjá hv. 1. þm. Vestf. sem er auðvitað að reyna að bjarga málum í horn eftir að hæstv. viðskrh. er meira og minna búinn að sprengja þessa umræðu í loft upp og ber auðvitað einn og að öllu leyti ábyrgð á því að sú samstaða hefur að nokkru leyti rofnað sem var um afgreiðslu þessa máls.
    Ég vil láta það vera alveg skýrt hvað fyrir mér vakir með því að óska eftir frestun á þessari umræðu. Annað tveggja er það að ég vil geta mætt hér til umræðunnar eftir að hafa haft tíma til þess að undirbúa mig áður en hún heldur áfram, mun betur undirbúinn en ég er hér og nú til þess að rökstyðja mál mitt rækilega vegna ummæla hæstv. viðskrh. þannig að það liggi fyrir hér við afgreiðslu málsins hver mín afstaða til þess er og hvað í mínum stuðningi felst og felst ekki, ellegar þá, sem kæmi einnig til greina, að nefndin tæki málið til sín á þessu stigi og mönnum gæfist kostur á því að skila frhnál. Menn geta skilað séráliti þó svo að þeir styðji málið eins og aðrir hv. nefndarmenn en í séráliti felst þá rökstuðningur þeirra og fyrirvarar og útskýringar á þeirra afstöðu. Þetta þekkja hv. þm. væntanlega og ég óska eftir því að mér gefist tóm til þess að vinna svona að málinu. Ég segi það alveg eins og er að það er harla sérkennilegt ef ekki er hægt að verða við því.
    Ég minni á það að nú starfar þingið í einni málstofu og ég hafði skilið það svo að menn ætluðu m.a. með hliðsjón af því að þingið starfaði ekki lengur í tveimur deildum, mál færu ekki í gegnum sexfalda umræðu og tvær nefndir færu ekki yfir málin, að virða óskir um það að umræðum yrði festað ef þær kæmu fram og virða óskir um það að mál gengju aftur til nefnda nánast á hvaða stigi sem slíkar óskir væru fram settar. Þetta hefur áður orðið að umræðuefni á þessum vetri og þá hafa menn gjarnan, a.m.k. þeir víðsýnni í hópi hv. þm., tekið undir það og játað því að auðvitað hljóti þetta að vera svona ef menn ætli að tryggja að málsmeðferð sé a.m.k. ekki óvandaðri en hún var áður þegar mál fóru hér í gegnum sexfalda umræðu og tvær nefndir tóku þau til sín.
    Ég ítreka því ósk mína, herra forseti, og ég tel að forseta fari nú ekki að verða mikið að vanbúnaði að fella sinn úrskurð um það hvort orðið verður við beiðni þriggja hv. þm. um það að þessari umræðu verði frestað. Ég nota svo þetta tækifæri til þess að mótmæla enn á ný tilburðum hæstv. viðskrh. til þess að snúa út úr afstöðu manna og snúa út úr stuðningi manna og ég bendi á að það hlýtur þá að hafa þær afleiðingar að stjórnarandstaðan yfirleitt hætti að skrifa upp á nál. með meiri hlutanum. Hvaða tilgangi þjónar það að vera að leggja það á sig að taka það inn í sína þingflokka, ræða það þar hvort menn séu tilbúnir til að stuðla að framgangi slíkra mála og fá það svo hér framan í sig að maður sé þá tvöfaldur í roðinu ef maður leyfir sér að hafa fyrirvara eða einhver annarlegur tilgangur af öðrum toga er lagður í afstöðu manns eins og hún birtist, að maður sé þá þar með að skrifa upp á alla stefnu ríkisstjórnarinnar eða ellegar sé maður með einhvern annarlegan undandrátt í sínum málflutningi?
    Þetta gengur auðvitað ekki svona, herra forseti, og ég tel að af almennum ástæðum sé sú uppákoma sem hér er orðin í þessari umræðu varðandi samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu og fleira í því sambandi þess eðlis að það sé óhjákvæmilegt að nú verði orðið við þessari ósk um frestun.