Viðskiptabankar

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:17:00 (4507)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Þótt ég hafi ekki verið viðstaddur afgreiðslu þessa máls þá tek ég það fram að ég styð það með sama hætti og meðnefndarmenn mínir. Og til þess að forðast nú allan misskilning gagnvart hæstv. viðskrh., þá er það ekki aðeins í orði heldur jafnframt á borði en hann sakaði þingmenn um það í máli sínu hér áðan að þeir hefðu eina afstöðu í orði en aðra á borði í því máli sem hér var á undan. Ég get jafnframt upplýst hæstv. viðskrh. um það að ég veit ekki betur en allir hv. þm. greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni, en vel má vera að hann hafi reynslu af einhverju öðru og vænti ég þess að hann komi ekki með þær ásakanir aftur í þessu máli eins og hann gerði hér í hinu fyrra sem var nú alveg með ólíkindum, að hæstv. ráðherra skyldi leyfa sér í umræðum að taka þannig til orða. Ég held að það hafi verið alveg nægileg ástæða til þess að fresta því máli sem hér var á undan og bíða þess að hæstv. viðskrh. yrði í eðlilegu jafnvægi við umræðuna þegar hún fer næst fram.
    Ég vildi taka það fram út af þessu máli að þær athugasemdir sem komu frá Landsbanka Íslands og formaður nefndarinnar gerði hér grein fyrir bárust því miður ekki fyrr en

nefndin hafði skilað áliti sínu. Ef ég man rétt ( Gripið fram í: Ekki skriflegu.) þá var Landsbanki Íslands með eina brtt. við frv. sem við gátum í sjálfu sér tekið undir, en sú brtt. hins vegar ekki í brtt. nefndarinnar og því vildi ég að það yrði tekið til athugunar hvort ekki væri rétt að málið fengi stutta umfjöllun í nefndinni milli 2. og 3. umr. án þess að það ætti án nokkurn hátt að vera til þess að tefja fyrir málinu.
    Það er að sjálfsögðu rétt ábending frá Landsbankanum að það er mikilvægt að samræmdar séu reglur um skattlagningu stofnana, m.a. útibúa erlendra aðila. Ég vil jafnframt minna á það að fram hafa komið kröfur um það að ríkisviðskiptabankarnir skiluðu arði til ríkissjóðs á þessu fjárlagaári og væntanlega á næstu árum sem gæti orðið til þess að gera þeim erfiðara um vik að uppfylla þær eiginfjárkröfur sem hér er verið að gera. Ég tel mjög mikilvægt að bankarnir fái svigrúm til þess að uppfylla þessar eiginfjárkröfur. Í því sambandi má minna á að t.d. ríkisviðskiptabankarnir greiða skatta af eigin fé sínu í formi eignarskatts en það er orðið nokkurt misræmi á milli slíkra stofnana og hlutafélaga vegna þess að hlutafélög greiða ekki eignarskatt af hlutafé sínu heldur eigendur hlutafjárins en þau eru mjög oft undanþegin eignarskatti hjá eigendum sínum. Þetta hefur jafnframt komið fram í umfjöllun nefndarinnar á skattlagninu ýmissa fjármálastofnana en frv. þess efnis er nú til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Þar hefur komið í ljós að ýmislegt sem þar kemur fram gengur á engan hátt og fullyrðingar um það að stofnanir séu mjög missettar að þessu leyti standast ekki oft og tíðum. Það er því mikil þörf á því að samræma alla skattalega meðferð í bankakerfinu og breyta þar ýmsu, m.a. afskriftareglum að því er varðar útlán stofnana. Það er ekki réttlætanlegt að mínu mati að gera miklar eiginfjárkröfur til bankanna en heimila þeim ekki að afskrifa útlán sín með eðlilegum hætti í skattalegu tilliti, en nú er aðeins heimilt að afskrifa 1% af útlánastofninum sem er allt of lítið, ekki síst í ljósi þeirrar efnahagsstefnu sem núv. ríkisstjórn rekur, en sú efnahagsstefna hlýtur að kalla á mun hærri afskriftaprósentu.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti. Ég vildi taka það fram að ég styð málið en ég vildi gjarnan að ýmislegt yrði athugað að því er það varðar, milli 2. og 3. umr., sérstaklega vegna ábendinga sem komu frá Landsbanka Íslands. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. taki það trúanlegt að menn vilji styðja mál sem frá honum koma en verði ekki með álíka útúrsnúninga og hann var hér fyrr í dag við umræður um önnur mál.