Viðskiptabankar

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 15:24:00 (4509)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það eru fáein orð sem varða ýmist efni þessa frv. en einnig mál sem tengjast því eða koma upp í hugann þegar frv. sem varðar stöðu viðskiptabankanna er hér til meðferðar og ekki er víst að önnur tækifæri gefist betri. Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem var hér til umræðu áðan og varðar eiginfjárhlutföll eða eiginfjárstöðu bankanna og þá sérstaklega þess þeirra af þrem hinum stóru sem tæpastur er, hvort sem miðað er við ákvæði núgildandi laga eða hinar nýju reglur, en það er Landsbanki Íslands.
    Eins og fram kemur í fylgiskjölum var upplýst að hlutfall eigin fjár Landsbankans í árslok 1990 miðað við hinar nýju BIS-reglur sé 8,2% en lögin gera ráð fyrir því að það sé að lágmarki 8%, sbr. ákvæði 4. gr. Það er því alveg ljóst að það má ekki mikið út af bera hjá þessum langstærsta banka landsmanna til þess að hann uppfylli þessi mörk. Nú er þetta miðað við árslok 1990 og það veldur nokkrum áhyggjum að síðan hefur hvort tveggja gerst að allmikil áföll hafa dunið yfir í efnahagslífinu og peningamálum þar sem ýmsir stórir aðilar hafa mátt afskrifa eða leggja til hliðar verulegar fjárhæðir vegna áfalla í okkar atvinnumálum og er það þá ekki síst Landsbankinn sökum stærðar sinnar, bæði í

fyrirgreiðslu við sjávarútveg og einnig fiskeldi, en á báðum þessum vígstöðvum hefur verið mikið um gjaldþrot og töp að undanförnu.
    Sömuleiðis er nokkuð ljóst að afkoma bankanna á sl. ári, árinu 1991, stefnir í að vera miklu lakari en hún var árið þar á undan. Nú hef ég ekki heyrt eða séð enn þá afkomutölur fyrir Landsbankann en ef borið er saman hvernig hagnaður annarra aðila sem hafa verið að ganga frá uppgjöri sínu að undanförnu hefur þróast á milli þessara tveggja ára, þá er í öllu falli ljóst að reikna má með því að afkoman hafi verið lakari.
    Þetta veldur því að það er því miður fullkomin ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu bankanna í þessu sambandi og þó einkum og sér í lagi Landsbankans. Og það er óhjákvæmilegt að ræða það hér, enda svo sem ekkert launungarmál, upplýsingar sem liggja fyrir í ársreikningum bankans sem fylgiskjöl með þessu frv. og hafa komið fram víðar opinberlega, að því miður er þessi langstærsta og mikilvægasta fjármálastofnun okkar, Landsbankinn, alls ekki svo traust sem skyldi miðað við þessar eiginfjárkröfur sem sjálfsagt mál er að við reynum að uppfylla í okkar fjármálastofnunum hér á Íslandi eins og annars staðar.
    Við þetta bætist einn þáttur enn sem ég vil nefna og það eru hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um einkavæðingu ríkisbankanna. Ég verð að láta það sjónarmið mitt hér í ljósi að ég tel að það sé afar varhugavert að fara glannalega í þeirri umræðu, ekki síst með tillliti til ofannefndrar stöðu Landsbankans sem ég hef verið að nefna og með tilliti til þeirra erfiðleika sem nú ganga yfir í stærstu viðskiptagrein bankans, sjávarútveginum, þar sem jafnvel er boðað að umfangsmikil gjaldþrot á næstu mánuðum og missirum muni ganga í gegn. Ég segi ekki að það sé beinlínis stefnan að láta þau gera það en í öllu falli eru augljóslega uppi þau sjónarmið víða og þar á meðal hjá áhrifaaðilum sem með sjávarútvegsmál fara eða með trúnað fara fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum að aðhafast a.m.k. ekkert til að afstýra því.
    Það hlýtur að gefa auga leið að Landsbankinn sem annast um 70% af öllum bankaviðskiptum við sjávarútveg í landinu á hér auðvitað gríðarlega mikið í húfi. Bankinn hefur ekki borð fyrir báru, því miður, til að taka á sig umfangsmikil töp vegna gjaldþrota í þessari atvinnugrein og ég óttast að ef hér fer á hinn versta veg, þá gætu menn staðið uppi með þá dapurlegu stöðu undir árslok að stærsti banki þjóðarinnar uppfyllti ekki þessar viðmiðunarreglur eða væri a.m.k. mjög tæpur gagnvart þeim þegar þær gengju í gildi á fyrsta degi næsta árs. Og það er auðvitað staða sem við væntanlega viljum ekki standa frammi fyrir.
    Þess vegna er óhjákvæmilegt í tengslum við afgreiðslu þessa frv. að ræða þessa stöðu. Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. viðskrh. hefur einhverjar nýjar upplýsingar fram að færa um þessi efni nú við 2. umr. málsins.
    Einnig hlýt ég að spyrja við þetta tækifæri, með vísan til þess sem ég sagði áðan að það er ekki víst að önnur gefist betri: Hvað líður áformum hæstv. ríkisstjórnar um einkavæðingu ríkisbankanna? Því þær nýjustu fréttir sem ég hafði af þeim málum voru að nú ætluðu menn ekki að láta þar við sitja að einkavæða eða breyta Búnaðarbankanum einum heldur væri jafnvel orðið ofan á í umræðu innan hæstv. ríkisstjórnar eða einhverjum hringjum í kringum hana að taka ríkisviðskiptabankana báða.
    Ég hef um það ákveðnar upplýsingar að þessi umræða hafi þegar vakið nokkurn óróa meðal viðskiptaaðila Landsbankans og það er auðvitað alveg ljóst að eitt af því sem hefur styrkt stöðu bankans á alþjóðlegum lánamarkaði og gert honum kleift að taka lán með betri kjörum, hvað sem öllum útreikningum Seðlabankans á áhættugrunni líður, er altæk ríkisábyrgð á bak við bankann sem ríkisfyrirtæki. Það er ljóst að Landsbankinn er sem hvert annað ríkisfyrirtæki sem algjöra ríkisábyrgð á bak við sig eins og málin standa í dag. Þetta er að sjálfsögðu vel kunnugt helstu lánardrottnum bankans á erlendri grund og hefur haft sín áhrif í þá veru að tryggja bankanum traust og hagstæð lánskjör erlendis. Ég held að það sé afar óheppilegt að bæta á, ofan á umræður um tæpa stöðu bankans og erfiðleika í sjávarútveginum, helstu viðskiptagrein bankans í atvinnulífinu, umræðum um áformaða einkavæðingu því að þar mundi fljótlega skipta máli hvernig að slíku yrði staðið og

hvort þess yrði jafnvel að vænta að einhver hluti af eignarhaldi bankans færi fljótlega yfir á aðrar hendur en ríkisins þannig að ekki einungis mundi ábyrgðin takmarkast við hlutafé heldur yrði sú hlutafjáreign á höndum fleiri aðila en ríkisins. Og þá er auðvitað skiljanlegt að erlendir lánardrottnar verði órólegir og vilji fylgjast með því sem hér er á ferðinni. Vænst hefði mér því þótt um það ef hæstv. viðskrh. hefði treyst sér til og haft sannfæringu til að koma hér í ræðustólinn og kveða niður þessi áform, a.m.k. fyrst um sinn, og taka af skarið með það að menn þyrftu ekki að óttast að breytingar yrðu á eignarhaldi Landsbankans eða rekstrarfyrirkomulagi eða formi á næstunni sem nein ástæða væri til þess að óttast varðandi það traust sem til hans megi bera sem lántakanda.
    Ég minni á það sem fram kemur í erindi Landsbankans að það er viðhorf manna á þeim bæ að miðað við núverandi eignarhald á bankanum og rekstrarform, þar sem um ríkisfyrirtæki með altæka ríkisábyrgð er að ræða, sé í raun og veru fullkomlega eðlilegt að bankinn færist í núlláhættugrunn samkvæmt skilgreiningu Seðlabankans sem þar á að verða til og drög hafa reyndar þegar verið unnin. Það væri sömuleiðis fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. viðskrh. í þessu efni. Fljótt á litið sér maður ekki hvers vegna Landsbanki Íslands, í 100% eigu ríkisins á ekki að vera sama trausts verður í þessum efnum og Landsvirkjun, svo dæmi sé tekið, sem er þó að hálfu í eigu sveitarfélaga á móti ríkinu. Auðvitað væri það kostur að óbreyttu skipulagi bankans að hann væri í þessum lægsta eða 0% áhættuflokki.
    Ég vil sem sagt gjarnan heyra viðhorf hæstv. viðskrh. í þessum efnum og hvort hann getur einhverjar nýjar fréttir eða upplýsingar fært okkur af því hvað sé á döfinni í þessum málefnum bankanna því að það eru auðvitað áhugaverðar og nauðsynlegar upplýsingar í sjálfu sér í tengslum við umræður um bankamál almennt. En einnig varðar það að því leyti efni þessa frv. að við erum hér að ræða um setningu reglna eða skilgreiningu nýrra reglna um þau lágmörk sem bankarnir þurfa að uppfylla hvað eigið fé snertir og því miður háttar þannig til að það er ekki alveg sjálfgefið að allir íslensku bankarnir ráði með auðveldum hætti við að uppfylla þau ákvæði þegar þar að kemur ef og þegar þetta tekur gildi um næstu áramót.
    Það þarf að sjálfsögðu ekki að fjölyrða um það hversu alvarleg sú staða er og mikinn þrýsting það mundi setja á bankana ef þeir eru í verulegri hættu í þessum efnum. Það mundi þá knýja bankana til að gera ráðstafanir til að uppfylla þessi mörk og má reikna með því að Landsbankinn telji sig hvort eð er það tæpan í þessum efnum að honum sé óhjákvæmilegt á næstu árum að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að auka sitt eigið fé í hlutfalli við veltu og það gerir bankinn væntanlega með þeim aðferðum sem honum eru helst tiltækar í þeim efnum. Og hverjar eru þær? Jú, með því að auka þá tekjur sínar í gegnum meiri vaxtamun og hærri vexti og þannig bæta afkomu sína og styrkja eigið fé sitt í gegnum rekstrarafgang og hagnað á næstu árum. Séu þessar leiðir hins vegar ekki færar eða a.m.k. takmarkaðar, sem við skulum nú ætla og út af fyrir sig vona því að væntanlega fellur það ekki vel að stefnu manna og áformum um að lækka vexti, þá gæti bankinn neyðst til þess á hinn bóginn að minnka rekstrarumsvif sín til þess að það eigið fé sem hann hefur í dag yrði hærra hlutfall af minni veltutölu. Og það mundi þá sömuleiðis ekki boða góðar fréttir í okkar viðskiptalífi ef Landsbankinn yrði að fara að segja upp viðskiptum eða takmarka aðstreymi nýrra viðskiptaaðila til þess að lagfæra þessi hlutföll. Bankinn getur að vísu reynt að styrkja eigið fé sitt með öðrum ráðstöfunum, svo sem þeim að eigandinn legði honum meira fé og slíkt mun hafa verið til umræðu en ekkert í hendi með það.
    Hér gæti því orðið um að ræða alvarleg mál sem gætu haft víðtæk áhrif á peningamarkað á Íslandi, áhrif á vaxtastig og/eða áhrif á atvinnulífið í landinu í gegnum það að þessi stærsti banki sæi sig knúinn til þess að takmarka að einhverju leyti umsvif sín í bankaviðskiptum og fyrirgreiðslu til fyrirtækja eða einstaklinga vegna þess að honum væru svo þröngar skorður settar gagnvart þessum hlutföllum.
    Mér finnst við þetta tækifæri, herra forseti, þegar þetta mál er hér að fara í gegnum aðra umræðu af þremur í þinginu, eðlilegt að þetta sé tekið upp og eitthvað rætt og

ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. komi inn á þessi efni og upplýsi okkur um þau og tjái sig um þau eins og hann er í stakk búinn til.