Ferðaþjónusta

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:34:00 (4515)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hvað líður undirbúningi boðaðra frumvarpa ríkisstjórnarinnar um málefni ferðaþjónustu?`` Það verður að segjast eins og er að það verk hefur ekki sóst jafnfast og ég hafði gert mér vonir um, m.a. vegna þess að ýmis atriði sem lúta að málefnum ferðaþjónustunnar koma inn á ákvæði samninganna um hið Evrópska efnahagssvæði. Þannig hafa t.d. ríkisborgarar á hinu Evrópska efnahagssvæði rétt til að stofna fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi eins og í flestum öðrum atvinnugreinum og ýmislegt er annað í þeim efnum sem verður að huga sérstaklega að.
    Önnur ástæða fyrir því hversu seint hefur sóst að ná samkomulagi um frv. til laga sem kæmi í stað þeirra laga sem nú gilda um Ferðarmálaráð er að ekki hefur náðst niðurstaða um það hvernig tekjuöflun til Ferðamálaráðs skuli háttað. Um það eru skiptar skoðanir en nauðsynlegt er að þannig sé frá hnútum gengið að tekjustofninn sé öruggur en þó

ekki úr hófi fram og ekki ágreiningur um hvernig hann skuli skilgreindur. Eins og ég hef hugsað þessi mál tel ég rétt að uppbygging ferðaþjónustu verði með sama eða svipuðum hætti og í útflutningsráði.
    Spurt er: ,,Hvernig er staðið að undirbúningi þessara mála?`` Til þessa verks var ráðinn Knútur Óskarsson hagfræðingur sem er þaulkunnugur ferðamálum, hefur unnið bæði fyrir Flugleiðir og einstakar ferðaskrifstofur, raunar komið að þessum rekstri frá barnsaldri. Hann skilaði mér frumvörpum fyrir jólin. Síðan hefur verið unnið áfram að því að útfæra þau en eins og ég sagði, þá hefur ekki náðst endanleg niðurstaða varðandi tekjuöflun. Eins þarf að huga að ýmsu vegna hinna nýju samninga um hið Evrópska efnahagssvæði. Knútur hafði samráð og ræddi við fjölmarga aðila sem koma að ferðaþjónustu. Ég skal ekki segja hverjir það eru nákvæmlega en hann vann mjög vel að undirbúningi málsins og ræddi við alla þá sem málið varða.
    Spurt er hvernig háttað sé samstarfi við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á sviði náttúruverndar við þennan undirbúning. Það er ekki leyndarmál hvað ég hef í huga í þessu sambandi og var m.a. kynnt á ráðstefnu hgsmunaaðila í ferðaþjónustu í Hveragerði á haustdögum. Um sambýli náttúru og ferðaþjónustu er það eitt að segja að menn víðs vegar um heim og raunar hvarvetna gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur fyrir ferðaþjónustu eins og annan atvinnurekstur að hún lifi í sátt við umhverfi sitt. Fyrir okkur Íslendinga skiptir þetta mjög miklu máli vegna þess aðdráttarafls sem náttúra Íslands hefur fyrir erlenda ferðamenn. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að stjórna slíku nábýli með einhverjum lögreglu- eða eftirlitsaðgerðum. Allt veltur á því að ferðaþjónustan sjálf skilji mikilvægi þess að vel sé um landið gengið og varðveiti þær náttúruperlur sem hafa mest aðdráttarafl. Einungis með því að ferðaþjónustan sjálf skipuleggi ferðir um landið með það í huga að hlífa viðkvæmustu stöðunum og reyni að opna nýjar leiðir fyrir ferðamenn er þess að vænta að menn hafi ánægju af dvöl sinni hér og náttúruperlurnar geti varðveist. Ég hygg að fyrirspyrjandi sé mér sammála um þetta atriði sem er raunar kjarninn í þeirri stefnu sem upp hefur verið tekin í ferðaþjónustu víðs vegar um heim eins og í öðrum atvinnugreinum, að lifa í sátt við landið og haga málum sínum með þeim hætti.
    Ég hef í hyggju að flytja á næstu dögum frv. um veitinga- og gististaði. Það er í athugun að flytja frv. um ferðamiðlun, það kemur inn á tryggingasjóði ferðaskrifstofa. Athygli mín var fyrir skömmu vakin sérstaklega á því að það mætti kannski fara ódýrari leiðir en við höfðum áður hugað. Það mál er verið að athuga sérstaklega en minni háttar breytingar sem lúta að stjórn verða e.t.v. gerðar á lögum um Ferðamálaráð og Ferðamálasjóð.