Ferðaþjónusta

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:42:00 (4518)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svör hans sem voru greinargóð. Ljóst er að þar sem nú á að aðlaga lög um ferðaþjónustu að markaði EES er náttúrlega kominn annar flötur á málið og verður þyngri í vöfum. En einmitt þess vegna þarf að hraða þessu verki því að miðað við þennan markað er allt þróunarstarf mjög mikilvægt og þar verður hið opinbera að koma inn í.
    Ég efast ekki um að Knútur Óskarsson hagfræðingur er hæfur maður á margan hátt og vel hafi verið staðið að endurskoðuninni en ég sakna þess eftir sem áður að fá þetta mikla samráð og vinnu endurtekna sem var hér áður eða alla vega í sama farvegi. Það er nauðsynlegt að ná góðri samvinnu, ekki bara við einstaklinga heldur náttúruverndarsamtökin, félögin sem slík, til að fá góða samstöðu um þetta mál og við erum öll meðvituð um það, a.m.k. langflest okkar, að verndun landsins er það sem við þurfum öll að standa að. Þegar kemur að því að kosta til þess einhverju fé og ákveða hvar mörkin eru þá vandast málið. Hver á að gera hvað og hver á að kosta til þess? Er það ríkið, sveitarfélögin, einstaklingarnir eða einhver félög? Meðan línurnar eru ekki skýrar og boltanum varpað á milli vilja verða ýmsar brotalamir í landverndinni. Hætt er við að farið verði í handahófskenndar aðgerðir í atvinnugreininni og landsbyggðin verði út undan ef ekki kemur fram skýr ferðamálastefna og ný lög um ferðaþjónustu. Þá verður uppbyggingin ekki með þeim hætti að hún þjóni hagsmunum okkar Íslendinga þegar til langs tíma er litið. Og því vil ég spyrja ráðherra: Mun hann leggja fram frv. á þessu þingi? Og hvað veldur því að ráðherra hefur ekki haft samráð við Ferðamálaráð við undirbúning frv.?