Fjarskipti og sjónvarpsútsendingar á Vestfjarðamið

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:51:00 (4524)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég hef lesið um það í blöðum að einhverjir hérvillingar séu enn að halda fund í myrkvuðum samkomuhúsum úti í Rússlandi og þykjast vera fulltrúar hins gamla Sovétlýðveldis. En mig hafði satt að segja ekki órað fyrir því að einhverjir menn andlega skyldir þeim fyndust enn við Djúp. Ég hlýt að láta í ljós undrun mína yfir því að enn sé talað um ratsjárstöð á Bolafjalli sem hernaðarmannvirki. Við erum að tala hér um öryggistæki og eins og fram hefur komið í þessum umræðum mun það nýtast með margvíslegum hætti öðrum t.d. til að bæta fjarskiptabúnað og útvarpssendingar þegar frá líður. Hér er fyrst og fremst um öryggistæki að ræða og mjög villandi og beinlínis rangt að kenna það við hernaðarumsvif.