Milliliðakostnaður í sölu landbúnaðarafurða

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:53:00 (4525)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunngt er hafa bændur landsins þurft að taka á sig skerðingu á framleiðslu og aðrar fórnir samkvæmt búvörusamningi og eru að laga framleiðslu sína að markaðsaðstæðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að neytendur kvarta yfir því að verðlag á landbúnaðarafurðum sé of hátt og það kemur m.a. fram í því að sala landbúnaðarafurða hefur verið að dragast saman.
    Það hefur vakið athygli að á meðan bændur hafa tekið á sig skerðingu virðist ekki hafa verið tekið á milliliðakerfi og sölu- og dreifingarkerfi landbúnaðarins. Í mjög athyglisverðri skýrslu sem nýlega er komin út og heitir ,,Greinargerð nefndar sem fjallar um verðjöfnunargjaldskerfi skv. bókun 2 í fríverslunarsamningi Íslands og EB, og EFTA samningum, og varðar iðnaðarvörur sem nota landbúnaðarafurðir sem hráefni að einhverju leyti``, en skýrslan var tekin saman af nefnd sem iðnrh. skipaði, kennir ýmissa grasa þar sem sérstaklega er verið að fjalla um verðlagningarkerfi í mjólkuriðnaði. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Við verðákvarðanir virðist svo sem fimmmannanefnd leggi ekki mat á hagkvæmni framleiðslu, heldur byggi að verulegu leyti á kostnaðartölum framleiðenda, svo sem um heildarafkomu viðkomandi framleiðslusvæðis, þannig að ,,heildsöluverð nægi fyrir kostnaði``. Þar með virðist framleiðendum tryggður rekstrargrundvöllur, þar með talin þeim óhagkvæmustu . . .  ``
    Enn fremur segir í þessari skýrslu: ,,Fram kemur, að góð afkoma mjólkuriðnaðarins endurspeglast m.a. í því að eignarfjárhlutfall í mjólkuriðnaði er langt umfram það sem þekkist í öðrum atvinnugreinum, eða eða um 65% eða sem nemur 4 milljörðum 429 millj. kr. árið 1989.``
    Það kemur einnig fram í þessari skýrslu að á árunum 1980--1990 hafi verð á nýmjólk til bænda lækkað um 11% á meðan vinnslu- og dreifingarkostnaður hefur hækkað um 30%. Það er því sannarlega ástæða til að spyrja hæstv. landbrh.:
    ,,Hyggst landbúnaðarráðherra beita sér fyrir aðgerðum sem dragi úr milliliðakostnaði í vinnslu og sölu landbúnaðarafurða, t.d. í mjólkuriðnaði, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur?``