Milliliðakostnaður í sölu landbúnaðarafurða

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:01:00 (4528)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin. Það sem kom fram í svari hans var að málið væri í endurskoðun í nefnd og þess mætti vænta að nefndin skilaði niðurstöðum áður en langt um líður. Minna má á að þetta mál hefur verið í endurskoðun hygg ég í tíð hvers einasta landbrh. eins og kom fram hér áðan hjá hæstv. fyrrv. landbrh. Það er vel ef nú má vænta þess að niðurstöður verði ákveðnari en hefur verið hingað til. Því verður ekki á móti mælt að kerfið sem við búum við er nánast sjálfvirkt kerfi framleiðenda, verðlagningarkerfi, sem skammtar sér tekjur nánast að vild á meðan bændur þurfa að una og lúta öðrum lögmálum.
    Yfirlýsing ráðherrans um þá skýrslu sem ég gerði að umræðuefni vekur sannarlega athygli. Hann talar um að í henni felist mikið af rangfærslum, talar um villandi samanburð. Það vekur þá spurningu hvort við hv. þm. getum yfirleitt tekið mark á opinberum skýrslum hér eftir, hvort það þurfi að liggja fyrir eitthvert sérstakt vottorð um að taka megi mark á þessari skýrslu eða hinni. Þetta er opinber skýrsla og opinber nefnd sem starfar innan stjórnkerfisins. Þess vegna verður að líta á yfirlýsingu ráðherrans sem mjög alvarlega í ljósi þess sem hér hefur fram komið.
    Skýrslan er eigi að síður athyglisverð. Hún dregur fram í dagsljósið mjög mörg atriði sem þarf náttúrlega að athuga og ég held að það sé ekki rétt hjá hæstv. landbrh. að vísa henni frá einvörðungu á þeim grundvelli að í henni sé mikið af rangfærslum og villandi samanburði. Það verður að taka mark á skýrslunni fyrst og fremst vegna þess að þetta er opinber skýrsla, unnin undir opinberri stjórn. Ef við getum ekki tekið mark á henni, þá hlýtur það að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir mat okkar á öðrum skýrslum sem koma t.d. frá hæstv. landbrh. í framtíðinni.