Milliliðakostnaður í sölu landbúnaðarafurða

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:03:00 (4529)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í þessari skýrslu segir Guðmundur Sigþórsson, skristofustjóri í landbrn.: ,,Ósammála efnistökum og innihaldi greinargerðarinnar. Tek ekki þátt í afgreiðslu hennar.`` Það er því alveg ljóst að landbrn., bæði opinberlega og eins með öðrum hætti, hefur lýst sig fullkomlega andsnúið efnistökum, uppsetningu og niðurröðun í þessari skýrslu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að verðlagsstjóri hefur rakið í fjölmiðlum mjög alvarlegar villur sem settar eru fram í skýrslunni sem bera það fyllilega með sér að ekki hefur verið unnið nægilega vel að undirbúningi hennar og kastað höndum til þeirra frumgagna sem vinna nefndarinnar er byggð á. Einstök línurit stangast á, enda, ef eftir er leitað, kemur í ljós að þær upplýsingar sem eru á bak við línuritin eru ekki samræmdar og ekki gerð grein fyrir því á hverju þær byggjast og skal ég ekki fara nánar út í það hér. En ég hygg að hver sá sem kynnir sér efni skýrslunnar þurfi ekki að vera í vafa um það að ekki er hægt að byggja á henni sem einhverju gagni sem síðar er hægt að draga ályktanir af.