Fjarskiptaeftirlitið

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:06:00 (4530)

     Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég legg hér fram fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 550. Það er 341. mál þessa þings og varðar Fjarskiptaeftirlitið.
    Hinn 16. apríl 1991 gaf samgrn. út reglugerð um Póst- og símamálastofnun, skipulag og verkefni. Í 6. gr. þessarar reglugerðar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjarskiptaeftirlit . . . ,  sem um eru settar sérstakar reglur, radíóeftirlit, leyfis- og tíðniúthlutun heyra til sérdeildar undir stjórn póst- og símamálastjóra og samgrn.``
    Í framhaldi af þessu tók forstöðumaður til starfa nú í ársbyrjun. Verið er að innrétta húsnæði fyrir starfsemi Fjarskiptaeftirlitsins úti í bæ og stefnt er að því að gera deildina að sjálfstæðri, óháðri stofnun innan tíðar. Í nágrannalöndum okkar hefur þessi þróun orðið enda krafa Evrópubandalagsins að fjarskiptaeftirlit sé sérstök óháð stofnun. Þar hefur þessi háttur leitt af sér hækkun á ýmsum gjöldum og aukin þjónustugjöld, svo sem hækkun á leyfisgjöldum fyrir senda og almenningstalstöðvar og sérstök leyfisgjöld á útvarpsstöðvar fyrir afnot af tíðnisviði til útsendingar. Undir Fjarskiptaeftirlit heyra tegundaprófanir á ýmsum fjarskiptabúnaði og notendabúnaði, t.d. símtækjum. Fyrir slíkar prófanir er greitt ákveðið þjónustugjald. Það mun hækka nú með tilkomu Fjarskiptaeftirlitsins. Er ætlunin að leggja gjald á þá sem hafa yfir ákveðnum tíðnisviðum að ráða eins og gjöld á útvarpsstöðvar sem fengið hafa úthlutað fastri tíðni til útsendingar, þ.e. eigi Fjarskiptaeftirlitið að standa undir sér? Þetta eru spurningar sem vakna þegar verkefni, sem áður heyrðu undir eina deild hjá Pósti og síma ásamt fleiri verkefnum, eru færð undir sérstaka deild eða stofnun. Þar sem telja má fullvíst að rekstur slíkrar stofnunar til að sinna þessum verkefnum muni leiða til aukins kostnaðar fyrir þjóðarbúið spyr ég hæstv. samgrh. á þessum sparnaðar- og aðhaldstímum í ríkisrekstri eftirfarandi spurninga:
    1. Í hvers þágu er hin nýja stofnun, Fjarskiptaeftirlitið, sett á fót, samanber 6. gr. reglugerðar nr. 173 frá 16. apríl 1991?
    2. Hvað er ráðgert að margir starfsmenn vinni við Fjarskiptaeftirlitið?
    3. Hver er áætlaður rekstrarkostnaður stofnunarinnar á ári?
    4. Hverjum er ætlað að bera kostnað af starfsemi stofnunarinnar sem mun fá einkaréttarstöðu á sínu sviði? Er ríkissjóði ætlað að bera allan kostnaðinn? Ef ekki: Eftir hvaða reglum verður þjónustugjöldum skipt og hverjir eiga að bera þau?