Greiðslur bænda í Atvinnuleysistryggingasjóð

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:22:00 (4535)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. trmrh. fyrir að hafa svarað þessari fsp. en ég get ekki annað en lýst yfir vonbrigðum með þau svör sem hann færði hér fram. Það var alger forsenda fyrir afgreiðslu þessa frv., eins og reyndar kom fram hjá nefndarmönnum, að lögin yrðu endurskoðuð. Fyrir lá yfirlýsing frá heilbr.- og trmrn. um að svo yrði gert og á það benti ég í framsögu með málinu. Það veldur auðvitað vonbrigðum að þrír af þeim aðilum sem fyrrv. heilbrrh. hafði hugsað sér að skipa í nefndina skyldu ekki vilja taka þátt í því starfi en að sjálfsögðu bar þá ráðherra að taka af skarið og velja menn með öðrum hætti. Ég ætla að treysta því að hann geri það því að með öðrum hætti eru þetta hin mestu ólög. Að sjálfsögðu verða réttindi að skapast á móti þeim útgjöldum sem þarna verða og leiða af upptöku tryggingagjaldsins. Og ég leyfi mér að treysta því að hann taki nú á sig rögg og drífi þetta nefndarstarf af stað. Það er óþolandi að ganga á bak þeirra orða sem látin voru falla við okkur í fjárhags- og viðskiptanefnd að endurskoðun færi fram og í þeim anda afgreiddum við málið. Það má kannski segja að við höfum verið of fljótir á okkur að láta málið frá okkur áður en gengið var frá hinum endanum, þ.e. að endurskoða lögin og það hefðum við að sjálfsögðu ekki gert með þeim hætti sem við gerðum ef það hefði

ekki legið fyrir að lögunum yrði breytt.
    Frú forseti. Ég heiti á hæstv. heilbr.- og trmrh. að vinda bráðan bug að því að koma þessari endurskoðun í gang.