Greiðslur bænda í Atvinnuleysistryggingasjóð

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:25:00 (4536)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil upplýsa að þetta er ekki einfalt mál eins og ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir. Lög um atvinnuleysistryggingar eiga sér þá forsögu að samið var um það við verkalýðshreyfinguna í verkfalli fyrir nokkuð mörgum árum að lögin yrðu sett. Þau eru þess eðlis að þau tryggja atvinnuleysisbætur einvörðungu til þeirra sem eru meðlimir í viðurkenndum stéttarfélögum. Þeir sem eru ekki aðilar að stéttarfélögum hafa ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Það eru fjölmargir aðilar í þessu þjóðfélagi sem þannig háttar til um. Til skamms tíma hafa það verið vörubifreiðastjórar, sendibílstjórar, sjálfstæðir atvinnurekendur, bændur og ýmsir fleiri aðilar.
    Talið hefur verið að þetta ákvæði bryti í bága við sáttmála sem Íslendingar eru aðilar að um jöfn réttindi til slíkrar samfélagslegrar samhjálpar fyrir alla þegna landsins án tillits til þess hvort þeir eru meðlimir í viðurkenndum stéttarfélögum eða ekki. Þetta hefur hins vegar verið mikið vandamál í sambandi við samskipti heilbrrn. og aðila vinnumarkaðarins því að samtök launafólks halda mjög fast í þau ákvæði að atvinnuleysistryggingar skuli aðeins miðast við að veita þeim sem eru félagar í viðurkenndum verkalýðsfélögum þann rétt. Við erum hins vegar, eins og fyrrv. ráðherra, að reyna að fást við þessi vandamál. Ég er sammála hv. þm. um að þetta eru réttindi af því tagi sem eiga að vera jöfn til allra borgara í samfélaginu án tillits til þess hvaða starf þeir stunda, án tillits ti þess hvort þeir eru félagar í einhverjum félögum eða ekki. Enn ríkari er sú nauðsyn þegar til þess er litið að greidd eru iðgjöld eða iðgjaldaígildi fyrir alla þjónustu og vinnu sem unnin er í landinu þannig að tekin eru iðgjöld eða iðgjaldaígildi af öllum launþegum þessa lands. En eins og ég segi, málið er ekki mjög einfalt. Það er talsvert erfitt að fá þetta sjónarmið viðurkennt en ég hef ásett mér, eins og fyrrv. heilbrigðisráðherrar, að fá menn til þess að fallast á þau sjónarmið sem mér finnst sjálfsögð í þessu efni.