Greiðsla ferðakostnaðar vegna tannréttinga

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:28:00 (4537)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 486 ber ég fram fsp. til heilbr.- og trmrh. um greiðslu ferðakostnaðar vegna tannréttinga. Frá því að slitnaði upp úr samningum sérfræðinga í tannréttingum og Tryggingastofnunar ríkisins þann 1. nóv. 1989 hefur mikil óvissa ríkt um framkvæmd tannréttinga og endurgreiðslur vegna tannréttinga og ferðakostnaðar. Foreldrar hafa fengið misvísandi upplýsingar um endurgreiðslur og margir ekki þorað að láta börnin byrja í tannréttingum vegna hins háa sérfræðingakostnaðar svo og mikils ferðakostnaðar, a.m.k. fyrir marga.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið eru uppi hugmyndir um að endurgreiða ferðakostnað í sama hlutfalli og tannréttingamatið er. Ef þetta er rétt verður aðstöðumunur landsbyggðarbarna í þeim landshlutum þar sem þessi þjónusta er ekki í boði enn meiri en hann er í dag. Því ber ég upp svohljóðandi fsp.:
  ,,1. Hvaða reglur gilda um þátttöku ríkisins í ferðakostnaði barna og aðstandenda þeirra vegna tannréttinga og hvernig er kynningu háttað á þessum reglum?
    2. Áformar ráðherra að beita sér fyrir breytingu til að draga úr aðstöðumun barna og aðstandenda þeirra vegna tannréttingaþjónustu með tilliti til búsetu?

    3. Ef svo er, hverjar eru þær breytingar og hvenær má vænta þess að þær komi til framkvæmda?``