Símaþjónusta Tryggingastofnunar ríkisins

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:51:00 (4547)

     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir þessa fsp. og tek undir þá þörf sem er fyrir grænt símanúmer hjá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrirspyrjandi kom inn á það í fyrri fsp. að hún hefði fengið margvísleg svör þegar spurst var fyrir hjá Tryggingastofnun. Mjög tíðar breytingar hafa orðið á almannatryggingalögunum undanfarið ár. Þó svo að Tryggingastofnun ríkisins hafi umboðsmenn um allt land þarf að upplýsa umboðsmennina. Það hefur verið gert með bréfaskriftum en einnig eru námskeið nauðsynleg fyrir umboðsmenn og þau þyrftu að vera á hverju ári. Námskeiðinu, sem átti að vera í haust, var frestað vegna sparnaðar en það hefði raunverulega þurft að vera. Og þegar miklar breytingar verða í almannatryggingakerfinu þarf peninga til að standa straum af kostnaði við kynningarnar. Það er nausynlegt til að fólk geti nýtt sér þann rétt sem það á samkvæmt almannatryggingunum og þekki réttinn og fái um hann upplýsingar. Ég tek undir að það þurfi grænt númer og fagna því að hæstv. heilbrrh. skuli taka vel í þá hugmynd.