Fræðsla í íslensku fyrir innflytjendur

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:06:02 (4558)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd Guðrúnar J. Halldórsdóttur, varaþingkonu Kvennalistans, vil ég beina fsp. til hæstv. menntmrh. Ég ætla að hafa að henni örlítinn formála.
    Á undanförnum árum hefur orðið mikil fjölgun erlendra ríkisborgara hér á landi. Árið 1991 fjölgaði þeim um 12% meðan fjölgun þjóðarinnar, þ.e. Íslendinga, var 1,2%. Mest fjölgun er á fólki frá Austur-Evrópu en það er einnig veruleg fjölgun á fólki frá Tælandi og Filippseyjum. Ég hygg að öllum þingheimi sé ljóst hversu mikilvægt það er að þeir útlendingar sem hér setjast að og ætla sér búsetu til lengri tíma geti á auðveldan hátt aðlagast því samfélagi sem hér er og þá ekki síst með því að læra tungumálið. Við þekkjum það frá öðrum þjóðum þar sem innflytjendastraumur hefur verið mikill að innflytjendum hættir til að setjast að í sömu hverfunum og verða býsna einangraðir frá almennu þjóðlífi. Við getum margt af þeim vandamálum lært sem komið hafa upp, m.a. hjá Norðurlandaþjóðunum.
    Eftir því sem ég best veit hefur engin stefna verið mörkuð hvað varðar íslenskukennslu fyrir útlendinga sem hér setjast að og hér er verulegur skortur á kennsluefni, sérstaklega fyrir börn. Og því vil ég beina eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.: ,,Hvernig hyggst ráðherra bregðast við sívaxandi fræðsluþörf í íslensku fyrir þann fjölmenna og fjölbreytta hóp innflytjenda á Íslandi, bæði af innlendum og erlendum stofni og á öllum aldri, sem þegar hefur flust til landsins og mun leita hingað á næstu árum?``