Svæðisútvarp á Vesturlandi

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:14:02 (4562)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. nr. 521 er fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi svæðisútvarp á Vesturlandi. Í útvarpi allra landsmanna gera menn kröfur til þess að njóta svipaðrar þjónustu og hlustunarskilyrða hvar sem þeir búa á landinu. Í ár eru liðin tíu ár frá því að svæðisútvarp á Akureyri tók til starfa og síðan hafa bæst við svæðisútvörp á Austfjörðum og Vestfjörðum.
    Enginn vafi leikur á því að með tilkomu svæðisútvarps á þessum stöðum tengjast byggðirnar betur innbyrðis auk þess að dagskrárgerðin verður fjölbreyttari og höfðar betur til hlustenda vítt um landið með landshlutatengdu efni auk þess að auka skilning landsmanna á því hvað er að gerast á hinum ýmsu stöðum og eykur á samhug og skilning þjóðarinnar.
    Það fer ekki hjá því að þeir hlustendur sem ekki hafa notið þeirrar þjónustu að hafa svæðisútvarp í sínum landshlutum finnist þeir afskiptir. Útvarp og sjónvarp hafa geysileg áhrif og öruggt má telja að til þeirra staða sem oft fá jákvæða umfjöllun liggi meiri straumur ferðamanna. Fréttaflutningur utan af landi þar sem ekki er fastráðinn fréttamaður er oft mjög handahófskenndur og því miður nær fyrr eyrum fréttin af erfiðleikum í atvinnulífinu og gjaldþrot en fréttir af spennandi menningarviðburðum, nýjum atvinnutækifærum og góðum aflabrögðum eða fréttir úr hinu daglega lífi sem betur fer eru oft litríkar.
    Til að fá jafna og góða heildarmynd af því sem er að gerast úti á landsbyggðinni þarf annaðhvort að koma til svæðisútvarp í öll kjördæmi eða fastráðinn fréttamaður sem búin er góð aðstaða og getur jafnhliða tekið fréttir fyrir útvarp og sjónvarp og er búsettur í kjördæminu. Um nokkurra ára bil hafa samtök sveitarfélaga í Vesturlandi samþykkt áskorun á aðalfundi sínum í þessu sambandi þar sem samtökin telja að efla þurfi stórlega þjónustu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
    Er fyrirhugað að auka þjónustu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi? Mega Vestlendingar eiga von á svæðisútvarpi? Ef svo er, hvenær má vænta þess að það komi til framkvæmda?