Svæðisútvarp á Vesturlandi

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:27:00 (4569)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég dreg ekki úr því að unnið verði að því af hálfu Ríkisútvarpsins að koma á svæðisútvarpi á Vesturlandi. Mér er hins vegar ljóst að þröng staða Ríkisútvarpsins gerir þetta örðugt einmitt núna, en það er Ríkisútvarpsins eins og annarra stofnana sem heyra undir ráðuneytið að raða verkefnum sínum í forgangsröð. Auðvitað er alveg ljóst að það að aðflutningsgjöldin hafa verið tekin frá útvarpinu á mörgum undanförnum árum hefur að sjálfsögðu haft áhrif á fjárhagsstöðu útvarpsins. Auðvitað hefur það líka áhrif á fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins að hækkunarbeiðni vegna afnotagjalda hefur ekki verið afgreidd og ég á ekki von á að mjög sé þrýst á það af hálfu alþingismanna að hækka þessi þjónustugjöld fremur en önnur. Ríkisútvarpið verður auðvitað sem aðrar stofnanir að taka þátt í þeim aðhaldsaðgerðum sem núna þarf að hafa í frammi.
    Hugmynd hv. 2. þm. Vesturl. um að fastur fréttamaður frá Ríkisútvarpinu verði á Vesturlandi er sjálfsagt að koma á framfæri við Ríkisútvarpið og ég efast reyndar ekkert um að henni er þegar komið til skila vegna þess að Ríkisútvarpið hefur fréttamann hér í húsinu.