Beiting lögregluvalds í forræðismálum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:33:00 (4571)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna efnis þessarar fsp. hefði e.t.v. verið eðlilegra að beina henni bæði til dómsmrh. og menntmrh. Engu að síður mun ég veita svör við einstökum liðum fsp. og styðst ég m.a. við upplýsingar sem starfsmenn dómsmrn. hafa aflað. Um dramatíska lýsingu hv. fyrirspyrjanda á aðgerðum ræði ég ekki. Þar var hv. fyrirspyrjandi að lýsa ástæðum þess að hann ber fram fsp.
    Fyrsta spurningin var: ,,Telur ráðherra þörf á að fram fari sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að valdbeitingu lögreglu til þess að taka 11 ára gamlan dreng frá móður sinni í Sandgerði 5. febrúar 1992?``
    Í umræddu máli hefur dómsmrn. látið menntmrn. í té þrjár skýrslur lögreglu þar sem greint er frá því atviki að 11 ára gamall drengur var tekinn af heimili í Sandgerði. Þar dvaldi hann með móður sinni en félagsmálaráð Akureyrar hafði svipt hana forsjá hans í maí 1991. Barnaverndarráð hafði staðfest þá ákvörðun. Vitað var að drengurinn hafði verið numinn á brott frá hjónum norður í landi þar sem honum hafði verið ráðstafað í framtíðarfóstur og hafði hans verið leitað nokkurn tíma.
    Í ákvæði 49. gr. laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, er kveðið á um refsiábyrgð þess sem nemur á brott barn sem ráðstafað hefur verið. Slíkt brottnám getur varðað sektum, varðhaldi eða allt að tveggja ára fangelsi. Lögreglu ber að ljá atbeina sinn til þess að fylgja fram kröfu barnaverndaryfirvalda um að forsjá barns færist í rétt horf. Af lestri lögregluskýrslnanna verður eigi séð að þörf sé sérstakrar rannsóknar á því hvernig lögreglan stóð að málinu eða aðgerðinni. Ef einhver opinber rannsókn á að fara fram ætti hún að beinast að þeim sem numu drenginn á brott þar sem slík háttsemi er refsiverð. Hins vegar er í höndum ríkissaksóknara að ákveða hvort ákæra skuli í slíkum málum.
    ,,2. Fóru aðgerðir fram með fullu samþykki fulltrúa barnaverndarnefnda í Sandgerði og á Akureyri?``
    Aðgerðin fór fram að ósk Félagsmálastofnunar Akureyrar og var fulltrúi hennar viðstaddur og jafnframt var fulltrúi barnaverndarnefndar Sandgerðis viðstaddur. Liggur því í hlutarins eðli að samþykki þessara lögmætu yfirvalda lá fyrir.
    ,,3. Hver stjórnaði aðgerðum lögreglunnar í þessu máli og hver ber ábyrgð á þeim?``
    Rannsóknarlögregla ríkisins hafði með höndum framkvæmd aðgerðarinnar og bar ábyrgð á henni. Lögreglan í umdæminu veitti atbeina að beiðni Rannsóknarlögreglu ríkisins. Í tilefni af fsp. þessari má benda á að löggjafinn hefur sett ákveðnar reglur í barnaverndarmálum og um framkvæmd þeirra. Þær eru þáttur í skipan réttarríkis og þeim reglum ber borgurum og stjórnvöldum að hlíta og það er ekki hægt að líta fram hjá ábyrgð þess sem kemur því til leiðar að reglum þessum þurfi að beita.
    ,,4. Er algengt að beita þurfi lögregluvaldi í forræðismálum? Hefur það gerst áður að móðir hafi verið handtekin við töku barns með valdi úr umsjá hennar?``
    Hér er um barnaverndarmál að ræða og aðgerðir í því máli byggja á ákvæðum laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966. Það er afar fátítt að til þess komi að barnaverndarmál komist á það stig að lögreglan þurfi að skerast í málið með þeim hætti sem hér um ræðir.
    Þótt slæmt sé að leysa þurfi úr málum með valdbeitingu lögreglu er það ekki síður eftirtektarvert ekki skuli oftar gripið til slíkra aðgerða. Í mörgum tilvikum hefur foreldrum og öðrum forsjáraðilum barna verið veittur frestur á frest ofan í því skyni að þeir bæti úr verulega ámælisverðu ástandi. Af þessu tilefni vil ég árétta eftirfarandi meginsjónarmið við umfjöllun barnaverndarmála.
    Barnavernd miðast við að veita börnum viðunandi uppvaxtarskilyrði og að þau búi við slíkar aðstæður að þau beri ekki skaða af. Ef brýnar ástæður knýja á um að gripið sé til sérstakra ráða til verndar barni, t.d. með því að taka það úr umsjá foreldra, er afar mikilvægt að fá barninu svo fljótt sem auðið er trausta og varanlega forsjá góðrar fósturfjölskyldu. Til slíkra ráðstafana er ekki gripið nema að lokinni vandlegri athugun lögmætra yfirvalda. Skirrst er við að taka börn af heimili fyrr en í lengstu lög. Því miður hafa þá börn og ungmenni iðulega beðið svo verulegan skaða að hann verður seint eða jafnvel aldrei bættur. Þetta sjónarmið virðist ekki hafa skilning hjá þeim sem stjórnað hafa þeirri neikvæðu umfjöllun um barnaverndarmál í sumum fjölmiðlum að undanförnu.