Beiting lögregluvalds í forræðismálum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:38:00 (4572)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar fsp. vil ég gjarnan að það sjónarmið mitt komi fram að ég tel að það orki mjög tvímælis að lögregluaðgerð sé í nokkru tilviki réttlætanleg þegar um barnaverndarmál er að ræða. Ég fagna þeim svörum ráðherra að mjög fátítt sé að slíkt gerist og það held ég að sé vissulega rétt. Hins vegar vil ég leggja á það áherslu í þessu máli, fyrst það er komið til umfjöllunar í þinginu, að í barnaverndarmálum af þessu tagi og í öllum barnaverndarmálum eru einu þolendurnir börnin. Þau eru einu þolendurnir. Foreldrarnir eru ekki þolendur í barnaverndarmálum. Foreldrarnir eru gerendur í barnaverndarmálum. Þegar til lögregluaðgerðar er gripið er sú aðgerð ekki bara á ábyrgð yfirvalda, hún er líka á ábyrgð foreldra sem ekki hafa getað leyst þessi mál fram að þeim tíma. Og í þessu tilviki því miður á ábyrgð móður. Í stað þess að saka yfirvöld um aðgerðir í þessu efni, sem ég hef þó sagt að ég tel orka tvímælis, þá vil ég miklu frekar saka yfirvöld um aðgerðarleysi í barnaverndarmálum oft og tíðum og að þau grípi ekki nógu snemma í taumana. Það stafar ekki síst af skorti á fjármunum og skorti á starfsfólki þar sem unnið er með þessi mál og þar sem raunverulega er hægt að vinna fyrirbyggjandi starf. Ég vil segja líka eins og kom fram hjá menntmrh. að stundum er allt of seint skorist í leikinn.