Háskólamenntun í listum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:46:00 (4576)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég ber fram fsp. um háskólamenntun í listum til menntmrh. sem er á þskj. 548. Í skýrslu um háskólamenntun í listum, sem nefnd á vegum menntmrn. skilaði af sér í jan. sl., kemur fram að þeir skólar sem talað hefur verið um sem uppistöðu í Listaháskóla Íslands, þ.e. Tónlistarskólinn í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóli Íslands og Leiklistarskóli Íslands, eiga við mikla erfiðleika að stríða vegna þess hve lengi hefur dregist að taka ákvörðun um framtíð þeirra. Sem dæmi um þessa erfiðleika er ráðningarform kennara við skólana í ólestri, samvinna við innlendar háskólastofnanir um sameiginleg verkefni nær ómöguleg, samvinnu og tengslum við erlenda listaháskóla, bæði um grunnmenntun og framhaldsmenntun, er stofnað í stórhættu og þróun og uppbygging skólanna er í algerri óvissu. Það er sem sagt yfirvofandi stöðnun í allri starfsemi þessara skóla vegna þess að ekki hefur verið tekin ákvörðun um stöðu þeirra.
    Á síðustu árum hafa skólarnir þróast í þá átt að aðlaga námið að því sem gerist í listaháskólum í öðrum löndum. Formleg ákvörðun um að samræma skólastig listaskólanna að þessari þróun hefur verið í vændum lengi. Mótaðar hugmyndir hafa legið fyrir um árabil. Frumvarpsdrög um listaháskóla hafa verið lögð fyrir Alþingi eða kynnt 1984, 1989 og 1991 en aldrei náð fram að ganga.
    Fyrir um það bil ári var svo undirrituð viljayfirlýsing milli skólanna þriggja og Háskóla Íslands um samstarf um áframhaldandi uppbyggingu æðra listnáms hér á landi og var áðurnefnd nefnd stofnuð í framhaldi af því. Nefndin leggur til tvo kosti í skipan háskólamenntunar í listum. Annar þeirra er að Listaháskóli Íslands verði stofnaður samkvæmt þeim frumvarpsdrögum sem liggja fyrir í menntmrn. eða að Listaháskóli verði sjálfstæð kennslu- og rannsóknastofnun eða ,,college`` innan Háskóla Íslands og telur nefndin þann kostinn vænlegri. Báðar þessar tillögur fela í raun í sér lagabreytingar eða nýja lagasetningu og

gætu því tekið töluverðan tíma, en vegna hinnar alvarlegu stöðu skólanna hefur nefndin því einnig komið með tillögu um það að listaskólunum þremur verði veitt heimild til að starfrækja háskólamenntun í listum frá og með haustinu 1992 og hún verði skilgreind á lögformlegan hátt, t.d. með reglugerð. Einnig verði unnið að uppbyggingu háskólastigsins í áföngum á vegum skólanna þriggja, Háskólans og menntmrn. En ákvörðunina um þetta vantar enn. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvenær er að vænta formlegrar ákvörðunar og framkvæmda um listmenntun á háskólastigi og hver er afstaða ráðherrans til tillagna nefndarinnar á vegum ráðuneytis hans um skipan háskólamenntunar í listum?