Háskólamenntun í listum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:52:00 (4578)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans sem voru fróðleg en því miður ekki alveg á þann veg sem ég hefði helst kosið að heyra, þ.e. ekki er að vænta greinilegrar ákvörðunar um hvernig taka megi á þessum málum skólanna alveg á næstunni og hann vill bíða eftir áliti og umsögn Háskóla Íslands. Það er eðlilegt að beðið sé eftir því til þess að ákveða hvaða skipan verði höfð á þessu máli. Meðan skólarnir eru í þessari vondu stöðu sem þeir eru í í dag, þá er mjög brýnt að ákveða hvort yfirleitt eigi að leyfa háskólamenntun í listum, hvort færa eigi þetta skólastig upp á háskólastig. Það er ekkert sem liggur fyrir um að endilega þurfi lagabreytingar til þess að það megi verða í áföngum. Þess vegna langar mig til að heita á menntmrh. og brýna hann í raun og veru til að taka ákvörðun í þessu máli. Og mig langar til þess að spyrja hann enn og aftur: Ætlar ráðherrann að veita heimild til skólanna þriggja til þess að starfrækja háskólanám í listum í áföngum frá og með næsta hausti, eins og nefndin hefur lagt til, og staðfesta þar með reglugerð? Ætlar hann að skipa nefnd fulltrúa listaskólanna þriggja, Háskólans og menntmrn. til þess að vinna að áframhaldandi uppbyggingu?