Afgreiðsla lagafrumvarpa í tengslum við EES-samninginn

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 13:09:00 (4584)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir fagna þeirri yfirlýsingu sem fram hefur komið af hálfu forseta vegna þeirra fyrirspurna sem hér voru bornar fram í gær að því er varðar meðferð væntanlegs EES-samnings hér á Alþingi. Að vísu vil ég taka undir það sem fram kom í máli forseta að þetta mál hefði mátt bera hér öðruvísi að. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir því hvernig á að taka á þessu máli hér í þingsölunum þegar þar að kemur.
    Það er alveg ljóst að komi EES-samningurinn hingað til meðferðar, sem ég hlýt að vona, þarf að endurskipuleggja allt þinghaldið á vormánuðum og hugsanlega gera ráð fyrir þinghaldi að einhverju leyti yfir sumarið. Það verður ekki gert nema með samkomulagi og góðu samstarfi við þingflokkana. Ég tel að það hafi komið ótvírætt fram í máli forseta að ætlunin er að leita slíks samstarfs og ég fagna því. Það er aðalatriðið. En á þessari stundu er þetta mál í óvissu vegna þess að það liggur ekki enn þá fyrir með hvaða hætti Evrópudómstóllinn tekur á málinu. Ég tek undir það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns að allt bendir til þess að dómstóllinn láti þetta mál átölulaust og það verði lagt fyrir þjóðþingin, samningurinn verði undirritaður og lagður fyrir þjóðþingin til staðfestingar. En það kann hins vegar vel að fara svo, án þess að ég viti neitt meira um það en hv. síðasti ræðumaður, að þær tímasetningar sem menn settu sér í upphafi varðandi gildistöku samningsins um næstu áramót séu orðnar of þröngar og þá breytir það að sjálfsögðu líka verkáætlunum þeim sem verður að gera á Alþingi að því er varðar breytingar á afgreiðslu samningsins og væntanlegar lagabreytingar sem honum kunna að fylgja.