Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 14:27:00 (4591)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið mælt að það er ánægjuefni að um þetta mál hefur tekist góð samstaða í sjútvn. og fyrir liggja breytingar á frv. sem eru að mínu mati til verulegra bóta frá frv. eins og það var lagt fram og raunar sníður af agnúa sem einnig voru til staðar þegar mál þetta var flutt hér á fyrri þingum og hv. frsm. sjútvn., hv. 1. þm. Vestf., rakti í sinni framsögu.
    Ég var í hópi þeirra sem stóðu gegn lögfestingu þessa máls í þeim búningi sem það lá fyrir á fyrri þingum eða skyld mál og átti hlut að því að andæfa gegn því í neðri deild þingsins sem fékk það til meðferðar. Þó að það yrði síðan afgreitt til efri deildar komst það mál ekki áfram. Ég hef ekki sérstakar athugasemdir að gera við frv. eins og það liggur fyrir með brtt. en ég tek það fram að ég tel að það þurfi að fara mjög varlega með þá heimild sem ráðherra er veitt skv. 3. gr. til að víkja frá ákvæðum sem eru í þeirri grein, en verð svo að vænta þess að framkvæmdin fari vel úr hendi og þetta verði til bóta.
    Það er eitt atriði sem ég vil nefna við þessa umræðu en það eru ummæli sem ég heyrði í dag í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins úr munni hæstv. sjútvrh. og frásögn fréttamanns af framlagi hans á fundi eða ráðstefnu sem mun hafa verið haldin í morgun og ég kann ekki nánar deili á en sem fjallaði um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Þar sem ég hef ekki útskrift af þessum ummælum verð ég að nefna þau eftir minni og með þeim fyrirvara að ég hef ekki fengið þau á prenti enn sem komið er. Efnislega var það sem hæstv. ráðherra sagði á þá leið það að framkvæmd gildandi laga um fjárfestingu útlendinga í íslenskum sjávarútvegi, ákvæði sem lögfest voru á síðasta þingi með lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, laganúmerið hef ég ekki fyrir framan mig en þau voru samþykkt hér á Alþingi 15. mars 1991, --- að hann teldi að framkvæmd þessara laga væri ótæk og ekki gerleg og það væri ekki hægt að framkvæma þau ákvæði sem þessi lög kvæðu á um og það þyrfti að gera á verulegar breytingar, ef ég hef tekið rétt eftir, varðandi þessi efni og það til rýmkunar varðandi heimildir fyrir útlendinga. Að vísu er sá varnagli sleginn í ummælum ráðherrans að það mætti ekki verða til þess að Íslendingar misstu tökin á stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum. Þetta var ekki útfært nánar, en ég vil vekja athygli á þessum ummælum við þessa umræðu sem fer fram um frv. sem byggir á mjög ákveðnum lagatextum að því er varðar fiskveiðar og einnig lagaákvæðum sem varða fiskvinnsluna. Þótt að ég hafi ástæðu til að ætla að það séu kannski þau ákvæði sem ráðherrann hafi haft meira í huga en sjálfar fiskveiðarnar þá voru þar engin tvímæli af tekin og þannig talað í sambandi við fiskveiðarnar að ætla mátti að einnig þær gætu verið til endurskoðunar af hálfu hæstv. ráðherra ef hann fengi ráðið. Um þetta vil ég ekkert fullyrða. Hins vegar ég tel í rauninni alveg nauðsynlegt að um þessi mál verði fjallað í sjútvn. þingsins og gengið eftir því við hæstv. sjútvrh. hvaða hugmyndir það eru sem hann hefur í huga og er að boða að þurfi að koma varðandi fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi hérlendis og þær breytingar á gildandi lögum sem hann í rauninni var

að boða með þessu innleggi sínu í morgun. Ég vek athygli á því að frv. byggir á mjög fortakslausum ákvæðum að því er varðar eignaraðild í íslenskum veiðiskipum bæði hvað snertir einstaklinga og lögaðila í formi hlutafélaga. Ef sami ráðherra og leggur fram þetta frv. er með það bak við eyrað eða hefur þann ásetning að hrófla við þessum ákvæðum eða ákvæðum varðandi fjárfestingu í fiskvinnslu þarf að athuga það vel. Því það er vissulega svo að það getur verið snúið mál og reynt a.m.k. á ríkan vilja ef menn vilja tryggja að erlendir hagsmunir nái ekki einnig inn í veiðarnar. Þegar farið er að boða það af hálfu hæstv. sjútvrh. með þessum hætti opinberlega að þar þurfi að slaka á og þar þurfi að breyta og gildandi ákvæði séu óframkvæmanleg tel ég nauðsynlegt að sjútvn. þingsins afli sér upplýsinga um það með beinum hætti frá hæstv. ráðherra hvaða hugmyndir hann er hér að reifa. Auðvitað þurfa menn að átta sig á því hvaða þættir það eru í gildandi löggjöf --- það snýr auðvitað beint að sjútvn. þingsins að fjalla um það --- sem að mati framkvæmdarvaldsins eru óframkvæmanleg og þurfa af þeim sökum breytinga við.
    Ég vil, virðulegur forseti, vekja athygli á þessu hér. Því miður er hæstv. ráðherra ekki hér. Hann hefur fjarvistarleyfi frá þingfundi svo að ekki er hægt að óska eftir skýringum hér á fundinum af hans hálfu. Ég vil aðeins koma þessu á framfæri vegna þess að það varðar mjög mikilvæg efnisatriði án þess að ég kunni frekar að lesa í mál hæstv. ráðherra en ég hef reynt að koma hér á framfæri.