Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 14:56:00 (4593)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa langt mál um frv. núna í umræðunni. Flest þau efnisatriði sem máli skipta hafa komið fram nú þegar og um þetta mál hefur skapast mjög farsæl eining. Ég vil þó taka eftirfarandi fram:
    Ég tel að full ástæða sé til að sýna gætni þegar verið er að hrófla við gömlum lögum þótt þau hafi verið sett við aðrar forsendur en nú ríkja. Því fagna ég þeim breytingum sem urðu á frv. í meðförum nefndarinnar og eru í takt við ábendingar og umræðu sem var innan nefndarinnar og jafnframt í takt við þær athugasemdir sem komu frá hv. utanrmn. Ég held að þarna hafi verið vel að verki staðið og þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. séu alveg tvímælalaust til bóta. Ég hefði jafnvel sjálf verið reiðubúin til að vera enn gætnari í orðalagi en ég get fyllilega sætt mig við þá niðurstöðu sem varð hér.
    Þar sem það blasir við að við þekkjum sjóinn, hafið í kringum okkur, ekki sem skyldi, tel ég ástæðu til þess að við flýtum okkur hægt þegar við erum að breyta lögum sem kannski tryggja okkur ákveðinn rétt. Það kom glöggt fram í góðri umræðu innan nefndarinnar að vera má að eftir örfá ár líti mál öðruvísi út. Mikilvægar rannsóknir á nýtingu fleiri fiskstofna en nú eru nýttir eru skammt á veg komnar að mörgu leyti og auðvitað er full ástæða til að við séum ekki að semja á nokkurn hátt af okkur. Það tel ég ekki að við séum að gera með því að samþykkja þetta frv. Ég styð því fyllilega þá niðurstöðu sem varð innan nefndarinnar.
    Ég vil jafnframt fagna þeim breytingum sem gerðar hafa verið á 4. gr. þar sem tekið var tillit til þeirra sjónarmiða sem komu frá Landhelgisgæslu Íslands. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um það að við skuldum Landhelgisgæslunni þann stuðning sem

hægt er. Því miður er mjög sorglegt til þess að vita að Landhelgisgæslan hefur ekki búið við þau skilyrði sem maður vildi sjá en ef eitthvað er hægt að létta henni störfin þá er það að sjálfsögðu mjög mikilvægt.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í þá umræðu sem hefur orðið hér um skipasmíðar. Ég blandaði mér ekki í 1. umr. þess máls vegna þess að ég taldi að e.t.v. væri ástæða til að ræða skipasmíðarnar á öðrum vettvangi. En auðvitað tek ég fyllilega undir það að við eigum að nýta þau tækifæri sem við höfum til að bæta verkefnum í okkar skipasmíðaiðnaði sem því miður hefur staðið mjög illa að vígi og ég vonast auðvitað til þess að núna verði fleiri viðhaldsverkefni og slíkt sem kemur til íslenskra skipasmíðastöðva. Ég tala ekki um ef þetta yrði til að ýta undir einhverja nýsköpun þar.
    Ekki finnst mér heldur ástæða til að fara út í ítarlegar umræður um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Ég held að það komi fram sem þarf í þessu frv. og ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með það og fagna því að hér hefur náðst niðurstaða í máli sem lengi hefur í margvíslegum myndum verið fjallað um manna á meðal og hér á Alþingi. Ég held að þótt við sýnum nokkra gætni nú þegar við gerum þessa sögulegu breytingu á 70 ára gömlum lögum sé það af hinu góða að flýta sér hægt.