Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:02:00 (4594)

     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Það er að sönnu rétt að þessu máli hafa tengst umræður um fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu innan lands og jafnframt um stöðu íslensks skipaiðnaðar. Þess vegna er það sérstaklega ánægjulegt að hlýða hér á hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsa því yfir að nú þegar séu nokkur fyrirtæki í skipaiðnaði í startholunum og jafnvel búin að senda menn til útlanda til að afla viðskipta sem munu væntanlega sigla í kjölfar samþykktar frv. Ég tel það merka yfirlýsingu og ég fagna henni, ekki síst vegna þess að ýmsir hv. þm. stjórnarandstöðunnar --- að vísu ekki hv. þm. Steingrímur Jóhann --- höfðu haft uppi efasemdir þegar við vorum að ræða frv. hér við 1. umr. hvort það mundi hafa einhver veruleg áhrif á þessum vettvangi. En nú liggur það fyrir að einn helsti talsmaður stjórnarandstöðunnar í sjávarútvegsmálum telur að samþykkt þessa frv. muni hafa mjög góð áhrif á stöðu innlends skipaiðnaðar og það ber að þakka þennan góða skilning.
    Virðulegi forseti. Um það mál sem við erum að ræða hér í dag, þ.e. frv. til laga um rétt til veiða í efnahagslögsögunni, hafa spunnist miklar umræður, ekki bara hér í þinginu heldur líka í þeim tveimur nefndum sem hafa um þetta vélað, utanrmn. og sjútvrn. Þessar umræður snerust að verulegu leyti um 3. gr. þar sem kveðið er upp úr með þá meginreglu að erlend skip megi landa afla sínum hér á landi. Í upphaflega frv. var jafnframt tekið fram í greininni að væri um að ræða fisk sem aflað væri úr nytjastofnum sem við ættum sameiginlega með öðrum þjóðum og enn væri ósamið um, þá hefði ráðherra heimild til að banna landanir. Frv. gerði ráð fyrir því að erlend veiðiskip tilkynntu hlutaðeigandi hafnaryfirvöldum um komu sína til landsins og jafnframt hvers konar veiðar þau hefðu stundað og hvar. Hafnaryfirvöldin skyldu svo tilkynna sjútvrn. um þau skip sem ætla mætti að hefðu verið að veiða úr stofnum sem ósamið er um. Jafnframt lá fyrir sá skilningur að þessari heimild yrði beitt þegar um væri að ræða stofna sem við höfum umtalsverða hagsmuni af og löndunarheimildir gætu mögulega stuðlað að ofnýtingu á þessum stofnum. Þannig sagði í grg. með frv., með leyfi forseta: ,,Sé stofn t.d. ofnýttur og samkomulag ekki tekist um nýtingu hans þykir óeðlilegt að erlendum veiðiskipum verði auðveldaðar veiðar með því að veita þeim alla þjónustu og heimild til löndunar afla hér á landi.``
    Í greinargerðinni var jafnframt ítrekað að ekki þyrfti endilega að vera uppi ágreiningur við það ríki sem viðkomandi skip væri frá til að ráðherra gæti beitt þessu banni. Það er því alveg ljóst að upphaflega frv. gerði ráð fyrir mjög víðtækri heimild ráðherra til að takmarka landanir á afla úr sameiginlegum stofnum sem er ekki búið að semja um nýtingu á.
    Utanrmn., sem fékk þetta mál til umsagnar, var einróma í því áliti sínu að réttara væri að orða umrædd ákvæði fremur með þeim hætti að landanir úr slíkum stofnum skyldu óheimilar en veita hins vegar ráðherranum heimild til að leyfa þær ef honum sýndist ástæður til. Jafnframt taldi nefndin rétt, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, að fara að ábendingum Landhelgisgæslunnar um að í staðinn fyrir að erlent veiðiskip tilkynnti sig hafnaryfirvöldum skyldi það tilkynna sig Landhelgisgæslunni sem sæi svo aftur um að láta sjútvrn. vita teldi hún það þurfa. Í báðum útgáfum er þannig kveðið á um að erlend skip tilkynni sig til yfirvalda sem aftur gerir sjútvrn. viðvart sem síðan vegur og metur hvort rétt sé að leyfa löndunina eða ekki. Þarna er ekki um neina eðlisbreytingu að ræða að mínu mati frá fyrri gerð frv. Helsta röksemdin fyrir seinni útgáfunni var að vísu sú að það orðalag gæfi íslenskum stjórnvöldum aukið vogarafl í samningum við erlendar þjóðir um sameiginlega stofna. Ég er í sjálfu sér ekki sammála þeirri röksemd. Það má e.t.v. segja að þetta sé varfærnara orðalag. Ég tel breytinguna hins vegar lítilvæga og ef hægt er að ná um hana sátt get ég fyrir mitt leyti vel fallist á hana.
    Í dag eru nokkrir stofnar sem ekki er búið að semja um nýtingu á. Um er að ræða stofna sem að hluta til halda sig innan íslenskrar lögsögu, að hluta til utan hennar, sumir í lögsögu annarra ríkja eða á alþjóðlegu hafsvæði. Það er til að mynda karfi, bæði gullkarfi og djúpkarfi, sem við eigum sameiginlega með Grænlandi og Færeyjum. Jafnframt er djúpkarfi að einhverju marki á alþjóðlegu hafsvæði. Úthafskarfi er bæði innan íslenskrar og grænlenskrar lögsögu og jafnframt á alþjóðlegu hafsvæði. Við höfum úthafsrækju sem við eigum sameiginlega með Grænlandi. Kolmunni gengur í gegnum lögsögu margra ríkja. Við höfum loðnu sameiginlega með Grænlandi og Noregi og grálúða er að líkindum að einhverju marki einnig í grænlenskri lögsögu þó að það mál sé ekki fullkannað. Síðan má heldur ekki gleyma hinum gamalgróna og góða norsk-íslenska síldarstofni sem fer um lögsögu nokkurra ríkja og alþjóðleg hafsvæði ef hann tekur aftur upp fyrri hegðan. Mestir hagsmunir í dag varða fyrst og fremst tvær tegundir, rækju og karfa. Um hvorugan stofninn er samið og mér skilst að samningar séu ekki í gangi, sem mér finnst sæta nokkurri furðu þó að mér sé kunnugt um að viss tregða sé af hálfu Grænlendinga. Minni deilur standa í sjálfu sér um rækjuna, ekki síst vegna þess að verulega stór hluti hennar er innan grænlenskrar lögsögu eins og hér hefur komið fram. Það er úr þessum stofnum sem rækja dönsku skipanna kemur sem deilur hafa staðið um og fréttir verið af síðustu vikur. Grænlendingarnir hafa hins vegar sjálfir fengið að landa afla hérlendis úr þessum stofnum, samkvæmt sérstökum samningum. Ég vil taka undir með fyrri ræðumönnum að ég tel mjög nauðsynlegt að gengið verði til samninga við Grænlendinga um þennan stofn sem fyrst. Hitt er svo annað mál að þeir hagsmunir, sem við Íslendingar eigum í húfi varðandi þennan stofn, eru þess eðlis að ég tel alveg vansalaust að leyfa þeim dönsku skipum sem um ræðir landanir í höfnum hér heima þangað til samningum verður lokið. Ég vænti þess að sjútvrh. heimili það þegar í stað eftir gildistöku þessara laga.
    Ég ítreka að við leyfum nú þegar Grænlendingum landanir úr þessum stofnum. Hér er einfaldlega ekki um það mikla hagsmuni að ræða í þessu tiltekna máli að við eigum að fetta fingur út í landanir Dana fram að þeim tíma að samningar nást.
    Ég vil líka taka það fram að ég er ekki alveg sammála þeim túlkunum sem hér hafa komið fram í máli sumra hv. þm. að nauðsynlegt sé að hafa utanrmn. með í ráðum varðandi leyfi fyrir einstakar landanir. Ég nefni t.d. þann möguleika að skip kæmu hér og vildu landa úr sameiginlegum stofnum sem ekki er búið að semja um en eru vannýttir, t.d. stofni eins og kolmunna. Þá tel ég það hálfhlálegt svo ekki sé meira sagt að fara að ræða sérstaklega einstök tilvik í utanrmn. Mér skildist á hv. þingmönnum hér áðan að farið væri fram á slíkt.
    Hvað karfann varðar er hins vegar miklu meira í húfi. Þar verðum við að gera okkar ýtrasta til að vernda stofninn frá ofveiði. Karfinn sem deilt er um í þessu tilviki er í rauninni tveir stofnar. Það er annars vegar gullkarfinn sem við þekkjum svo vel og hins vegar djúpkarfinn sem minna er vitað um. Þessir stofnar eru sameiginlegir Íslendingum, Færeyingum og Grænlendingum. Færeyingar hafa verið að taka þetta 12.000--15.000 tonn á hverju ári síðustu ár. Við Grænland hafa veiðst um 5.000 tonn og við Íslendingar höfum síðan veitt um 90.000 tonn. Alþjóðlega hafrannsóknaráðið hefur lagt til að heildarkvótinn verði 116.000 tonn og byggir það vitaskuld á nokkuð góðum rannsóknum. Við höfum sem sagt á grundvelli útbreiðslu og veiðireynslu gert tilkall til þessara 90.000 tonna. Grænlendingar hafa ekki viljað semja. Ástæðan er ekki síst sú að þeir hafa aflað sér tekna með því að selja veiðiheimildir til Efnahagsbandalagsins sem hefur síðan látið þær Þjóðverjum í té. Þannig seldu þeir á síðasta ári veiðiheimildir fyrir 46.000 tonn og menn sjá í hendi sér að ef þeir mundu nýta þessi 46.000 tonn þá mundu veiðar á karfanum fara talsvert fram yfir það sem vísindamenn ráðleggja og mjög líklegt að ofveiði kynni að veikja stofninn.
    Hitt er svo annað mál að Þjóðverjar hafa ekki veitt nema sáralítið af þessu magni af þeirri ástæðu sem hér hefur verið drepið á í dag að útgerð við Austur-Grænland er afskaplega erfið nema útgerðaraðilar hafi aðstöðu til að reka hana frá Íslandi.
    Karfastofninn er okkur Íslendingum afar mikilvægur og þess vegna er hér um það mikið hagsmunamál að tefla fyrir okkur að ég tel ekki réttlætanlegt að nýta heimildir í núverandi lögum eða því frv. sem hér er til umræðu til að leyfa Þjóðverjum þetta fyrr en búið er að ganga tryggilega frá samningum um nýtingu stofnsins. Þetta vil ég að komi fram vegna þess að hér er um miklu mikilvægara mál að ræða fyrir okkur en rækjuna sem ég gat um áðan.
    Mig langar líka, virðulegi forseti, að drepa aðeins á þorskveiðar sem fara fram við Grænland. Þar er alls ekki um sameiginlegan stofn að ræða þótt vissulega hafi á sumum árum átt sér stað seiðarek frá Íslandi og yfir til Grænlands, fiskur sem að mestum hluta er talinn ganga aftur hingað. Þarna er ekki um sameiginlega stofna að ræða og í mínum huga er þess vegna enginn efi um að frv. sem hér liggur fyrir mun sjálfkrafa heimila löndun erlendra skipa á þorskafla frá Grænlandi.
    Það má kannski rifja upp hér að þorskstofnar við Grænland eru tveir, þ.e. annar er við Austur- og hinn við Vestur-Grænland. Því miður hefur aflinn hin síðustu ár ekki verið mikill og útlitið núna bendir heldur ekki til mikils bata. Í fyrra veiddust aðeins u.þ.b. 15.000 tonn úr hvorum stofni. Kvótinn í ár er svipaður og aflinn mun vera veiddur að meiri hluta af Þjóðverjum en jafnframt munu Grænlendingar veiða talsvert. Það liggur hins vegar fyrir að áhugi er á því að landa a.m.k. hluta þessa afla hér á landi. Ég hygg að það kynni að reynast veruleg lyftistöng fyrir fiskmarkaði og atvinnu á ýmsum stöðum á suðvesturhorninu og e.t.v. víðar. En því má hins vegar ekki gleyma að þó að þorskstofnar séu núna í lágmarki við Grænland, þá eru ekki margir áratugir síðan stofnarnir voru miklu miklu stærri. Þannig var það t.d. milli áranna 1955 og 1960 að við Vestur-Grænland veiddust hvorki meira né minna en 400.000 tonn á hverju ári. Þá var um að ræða afar sterkan hrygningarstofn en á ísárunum, um og eftir 1965, misheppnaðist klak og fór saman við ofveiði svo stofninn var keyrður niður. Það getur hins vegar allt eins komið til þess einhvern tímann í framtíðinni að þessir stofnar við Grænland vaxi aftur og þá kynnu landanir úr þeim að skipta verulega miklu máli fyrir atvinnulíf á Íslandi.
    Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að ég tel þetta frv. horfa til mikilla heilla og er ánægður með þá miklu samstöðu sem menn hafa lýst hér í dag um þær breytingar sem lagðar eru til á því.