Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:30:00 (4600)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. gerði að umræðuefni ummæli sjútvrh. á einhverjum morgunverðarfundi. Sjútvrh. var á fundi Verslunarráðs Íslands í gær og á þeim fundi varaði hann við því að menn opnuðu fyrir beina óhefta eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Með því væri verið að afhenda erlendum aðilum auðlindina og sleppa yfirráðum okkar yfir landhelginni. Hann sagði enn fremur að lögin frá sl. ári um eignaraðild útlendinga í sjávarútvegi væru ekki nægjanlega skýr. Það hefur komið fram áður og ég hygg að það sem hv. 4. þm. Austurl. gerði að umræðuefni hafi verið það túlkunaratriði á þeim lögum að ef útlendingur sem ætti einhverja aðild, hvort sem það væri með beinum eða óbeinum hætti í íslensku útgerðarfélagi, þá bæri að taka veiðileyfi af slíkri útgerð. Sjútvrh. og ráðuneyti hafa óskað eftir því við ríkislögmann að hann semji og sendi því greinargerð um túlkun þess á þessum lögum.
    Ég held að ekki sé hægt að segja neitt fortakslausara en gert er í fyrstu tveimur greinum þessa frv. varðandi aðild útlendinga því að 1. gr. segir að erlendum skipum séu bannaðar allar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eins og hún er ákveðin í lögunum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. ,,Erlendum skipum er óheimilt að vinna afla í efnahagslögsögu Íslands.`` Í 2. gr. segir að fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands ,,mega einir stunda íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara. Til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands má aðeins hafa íslensk skip. En íslensk nefnast í lögum þessum þau skip sem skráð eru hér á landi.``
    Ég held að varla sé hægt að hafa þessa hluti fortakslausari en þeir eru í fyrstu tveimur greinum þessa frv. um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    En af hverju er þetta komið inn í umræðuna? Það er vegna þeirrar túlkunar sem var gerð snemma á sl. hausti að útlendingur mætti hvergi eiga í íslensku útgerðarfélagi eða útgerð. Þá kom upp þetta dæmi, að a.m.k. tvö olíufélaganna eru með erlenda aðila sem hlutahafa og tryggingarfélög og jafnvel fleiri aðilar eru með erlenda hluthafa að einhverju litlu leyti. Á að banna þessum félögum að eignast hlutdeild í útgerð hversu lítil sem hlutdeild útlendinga er? Nú hafa þessi félög og þessir aðilar komið inn í sjávarútveginn í þrengingum hans sjálfs og hafa á þann hátt komið sjávarútveginum til styrktar. Ef það verður túlkun ríkislögmanns að erlendir aðilar séu orðnir beinir þátttakendur í útgerð, ef þeir eru litlir hluthafar í félagi sem aftur er hluthafi í útgerð og þá sé það fortakslaust að svipta eigi þá útgerð veiðiheimildum --- þessi túlkun verður auðvitað að liggja fyrir --- þá verður að taka afstöðu til þess máls. Ég held að enga menn greini á um það ef útlendingarnir eru orðnir stórir hluthafar í slíkum fyrirtækjum sem gerast svo aftur hluthafar í útgerðarfélögum þá snúumst við til varnar.
    Hins vegar eru ýmsar aðrar hættur og blikur á lofti sem við sjáum ekki fyrir og oft er hægt að komast inn bakdyramegin með ýmsum hætti. En okkur greinir ekkert á um það að við viljum og ætlum okkur að Íslendingar einir nýti íslenska fiskveiðilögsögu og þannig að útgerðin sé alíslensk. En það er vandfarið með það hvernig við getum komið í veg fyrir það að útlendingar geti með einhverjum hætti læðst inn. Það er líka hægt að notfæra sér íslenska leppa. Leppar hafa verið til á öllum tímum í sögu þjóðanna og við þeim verður að sjá. Það er fyrst og fremst höfuðatriðið og atriði sem okkur greinir ekki á um að við viljum að nýting 200 mílna fiskveiðilögsögunnar sé alfarið í höndum Íslendinga einna. Ég hef ekki orðið var við það að á sjútvrh. sé nokkurn bilbug að finna að halda fast við þá stefnu.