Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:57:00 (4605)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið síðan framsaga var flutt fyrir þessari skýrslu eða nánar tiltekið 27. febr. Það er margt í henni með dálítið gömlum stíl, svo ekki sé kveðið fastar að orði, bæði viðhorf og sjónarmið, og það er leitt að vita til þess að enn skuli vera þingmenn sem eru fastir í gamalli tíð, frosnir inni og komast ekki til nútímans til að skyggnast þar um á sviði alþjóðamála.
    Það kemur fram í skýrslunni að víðsýni og þekking aukist við að heyra sjónarmið annarra þjóða. Það get ég út af fyrir sig tekið undir að hljóti að vera hin algilda regla en ég get því miður ekki séð eða heyrt á mæli hv. frsm. að víðsýni hans hafi aukist mikið við að starfa í þessum samtökum. Ég hlýt líka að benda á að það er ýmislegt í störfum þessara samtaka sem mér finnst bera vott um eitthvað annað en víðsýni þó svo við látum þekkinguna liggja á milli hluta.
    Ég vil t.d. benda á að eitt af aðildarríkjum samtakanna, samtaka ríkja við Norður-Atlantshaf, er Tyrkland svo að menn teygja nú Atlantshafið nokkuð langt. Ég velti fyrir mér lýðræðinu í því landi, þeirri víðsýni sem menn eiga að vera uppfullir af eftir langan tíma og langa aðild að þessu bandalagi. Hver er víðsýni ráðamanna í Tyrklandi gagnvart minnihlutahópum eins og Kúrdum? Hver er hún, hv. frsm.? Það væri fróðlegt að hann gerði grein fyrir því hvort menn hefðu ekki áhyggjur af því innan þessara samtaka hvernig stjórnvöld þar í landi koma fram við sína þegna.
    Það er nöturlegt til þess að vita að menn skuli styðja ríkisstjórn sem gerir sér far um að forsmá grundvallarmannréttindi gagnvart heilli þjóð í sínu ríki. Ég hefði talið það bera vott um víðsýni af hálfu flm. þessarar skýrslu ef hann hefði getið þessa málafloks og skýrt afstöðu Íslandsdeildarinnar til þess.
    Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa mörg fleiri orð um þessa framsöguræðu þó skondin hafi verið, en ég vil minna á og benda á það að þau viðhorf, sem birtast í henni, endurspegla viðhorf þeirra sem enn eru freðnir í fortíðinni og enn trúa á kalda stríðið. Það hvarflar að manni að það hafi verið sérstakt trúaratriði hjá ákveðnum stjórnmálaöflum hér að kalda stríðið væri fyrir hendi og að menn gætu hagnýtt sér það í stjórnmálabaráttu innan lands. Það væri svona ákveðið vopn sem menn teldu sig hafa á hendi til að slást við aðra flokka í íslenskum stjórnmálum. Auðvitað eru slíkir menn í miklum vanda þegar kalda stríðinu er lokið og þeir þurfa vissulega að endurhæfa sig og færa sína hugsun til nútímalegri hátta og ég sýni slíkum mönnum mikið umburðarlyndi og er reiðubúinn að gefa þeim nokkurn tíma meðan sú endurhæfing fer fram.
    En það er dálítið athyglisvert að það skuli vera Alþfl., eða talsmenn innan hans sem veifa þessum forneskjulegu viðhorfum. Það er engu líkara en þar sé helst að finna talsmenn þess ástands sem menn gátu hagnýtt sér hér á landi, talsmenn einokunarsamsteypu sem hefur mokað gulli árum saman í skjóli einkavalds á Keflavíkurflugvelli.
    Ég hef tekið eftir því að Alþfl., sem fer með forræði utanríkismála og hefur gert um nokkurt skeið, hefur verið ákaflega tregur, svo ekki sé meira sagt, til þess að þjóðnýta þennan hagnað fyrst hann er á annað borð til. Þvert á móti hefur það viðgengist á þeim tíma sem málin hafa verið í forsjá formanns Alþfl. að hinir útvöldu hafa getað skenkt sér hundruð milljóna króna, reyndar á annan milljarð króna ef allt er saman tekið, síðan 1989, ef ég man rétt. Það hefði verið verðugt verkefni fyrir jafnaðarmannaflokk að beita sér fyrir því að koma í veg fyrir slíkt athæfi, brjóta upp þetta kerfi sem viðgengist hefur hér áratugum saman. En það er nöturlegt að svo hefur ekki verið gert og menn geta enn í skjóli þess valds úthlutað sjálfum sér stórum og digrum sjóðum.