Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:03:00 (4615)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þessa skýrslu sem hér hefur verið flutt af Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins. Ég tel það afar mikilvægt að þingmenn frá okkar þjóðþingi taki þátt í því starfi sem þar fer fram og það er mikilvægt að styrkja starfsemi Norður-Atlantshafsbandalagsins með lýðræðislegu starfi þjóðkjörinna fulltrúa. Þar gefst tækifæri til að skiptast á skoðunum um mikilvægi þessa starfs og ég tel að enginn ætti að vera í vafa um að starfsemi NATO hefur verið til mikils gagns. Ég er undrandi yfir því að hér eru uppi efasemdir um að Norður-Atlantshafsbandalagið hafi gert gagn.
    Ég tel að það hafi verið afar mikilvægt fyrir litla þjóð eins og Íslendinga þegar þeir hlutu sitt sjálfstæði að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að gerast fljótlega aðilar að norrænu og vestrænu samstarfi. Allt þetta starf er mikilvægur þáttur í sjálfstæði okkar. Ég tel það líka hafa sýnt sig að Norður-Atlantshafsbandalagið hefur verið það bandalag í heiminum sem virkast hefur barist fyrir lýðræði. Það er hins vegar alveg rétt að víða má meira gagn gera í heiminum og auðvitað vonast maður eftir því að Sameinuðu þjóðirnar verði virkari í sínu starfi og um það náist samkomulag milli þjóða heims. En þær þjóðir sem komu á friði í Evrópu á sínum tíma hafa varðveitt þann frið og auðvitað eigum við Íslendingar að taka virkan þátt í því starfi.
    Ég vildi, virðulegur forseti, fyrst og fremst koma hér upp til að leggja á þetta áherslu. Hitt er svo alltaf spurning hvað ber að varast í þessu samstarfi. Ég er þeirrar skoðunar að ef lögð verður vaxandi áhersla á starf Vestur-Evrópubandalagsins, sem gæti orðið til þess að veikja Norður-Atlantshafsbandalagið, væri það skaðlegt fyrir Íslendinga. Ég tel að það hafi sannað sig að ekki er hægt að varðveita friðinn nema með virku samstarfi Evrópu og Norður-Ameríku og því ber okkur Íslendingum að leggja á það áherslu að binda þessar heimsálfur saman og gera það sem í okkar valdi stendur til að þarna komi ekki upp klofningur. Ég er ekki að spá því á nokkurn hátt en ég er ekki sammála ýmsu því sem hefur komið fram í Evrópu, m.a. að efla eigi starf þess bandalags en draga úr starfsemi NATO.
    Auðvitað er það svo að um það má alltaf deila hvers konar starfsemi skuli vera hér á landi á vegum þessara samtaka. Það hefur verið mikið deilumál í íslenskum stjórnmálum. Hér var minnst á byggingu ratsjárstöðva og um það var deilt á sínum tíma. Ég vil minna á í því sambandi að bygging þessara stöðva varð m.a. til þess þar sem ég best þekki til og bjó lengi sem unglingur, í nábýli við bandaríska hermenn á Höfn í Hornafirði, að þar dvöldu ekki lengur bandarískir hermenn. Þeir sem voru að berjast gegn ratsjárstöðvum á þeim tíma, t.d. í Austurlandskjördæmi, hvort sem það var gegn stöðinni á Gunnólfsvíkurfjalli eða við Stokksnes, voru í reynd að berjast fyrir því að óbreytt starfsemi yrði í stöðinni á Stokksnesi. Einnig voru þeir sem vildu algerlega vanrækja þetta samstarf. Auðvitað felst það í þessu starfi að fylgst sé með umferð í kringum Ísland. Það er öllum ljóst sem eitthvað hafa kynnt sér samstarf Norður-Atlantshafsþjóðanna að engin leið er að rækja það nema menn viti eitthvað um hvað er að gerast á höfunum hér í kring, hvort sem eftirlitið fer fram með flugvélum, með ratsjárstöðvum eða með öðrum þeim hætti sem nauðsynlegur er. Og sagan hefur sannað það að þetta starf hefur verið mikilvægt og á engan hátt óþarft. Á það vildi ég minna vegna þess að hér var verið að tala um ratsjárstöðvarnar sem voru ekki eingöngu byggðar á Vestfjörðum heldur tvær í Austurlandskjördæmi, annars vegar á Gunnólfsvíkurfjalli og á Stokksnesi.
    Það var hins vegar mjög umdeilt mál í Norður-Þingeyjarsýslu hvort heimila ætti byggingu slíkrar stöðvar og það tókst að koma í veg fyrir það. En flestir þingmenn Austurlands töldu ekkert því til fyrirstöðu að stöðin yrði byggð á Gunnólfsvíkurfjalli. Ég vænti þess að m.a. sú afstaða okkar hafi orðið til þess að þetta mál gekk nokkuð greiðlega fyrir sig. Hins vegar tek ég eftir því að sumir af þeim sem voru e.t.v. andvígir byggingu stöðvarinnar á sínum tíma vilja gjarnan þjónusta hana í dag. Þannig hafa viðhorfin breyst.
    Enginn ætti að vera í vafa um að þessi starfsemi hefur verið til gagns fyrir lýðræðisöflin í heiminum þótt vissulega hafi þetta starf ekki leyst öll vandamál heimsins. Ég held að enginn hafi búist við því en ég spyr á móti: Hverig væri ástatt í heiminum ef vestræn ríki hefðu ekki bundist þessum samtökum? Ég er fullviss um að það væri enn þá meira hörmungarástand. Það hefur sannað sig að hlutleysið er ekki stefna í utanríkismálum sem gengur. Það hefur alltaf legið fyrir frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki að það var rétt af Íslendingum að skipa sér í flokk þessara þjóða. Það hefði verið rangt að velja hlutleysisstefnuna og ég bendi á þær þjóðir í Evrópu sem hafa talað mest fyrir hlutleysisstefnu, t.d. vini okkar og frændur, Svía. Þar eru viðhorf að breytast og það sama á við um Finna þar sem hlutleysisstefnan hefur vissulega skipt miklu máli til að halda jafnvæginu og sambandinu við vestrið vegna nálægðarinnar við Sovétríkin. Eftir breytingarnar þar er það jafnframt að breytast og sú hlutleysisstefna sem þar hefur verið fylgt mun áreiðanlega aðlagast í verulegum mæli að vestrænni lýðræðisstefnu og samstarfi þeirra þjóða sem hafa best staðið vörð um lýðræðið í heiminum.