Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:16:00 (4618)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Mér finnst að umræðurnar hér í dag hafi staðfest það sem ég sagði að Alþb. er gersamlega fast í fortíðinni að því er þetta mál varðar. Það er furðulegt að heyra hv. 4. þm. Norðurl. e. segja að vandamál Atlantshafsbandalagsins sé að það dragi með sér inn í framtíðina mikinn vanda úr fortíðinni. Ef einhver aðili hér á við fortíðarvanda að glíma er það Alþb. Það hefur enn komið í ljós hér í þessum umræðum að Alþb., einn flokka, er andvígt því að vinna að því samstarfi þingmanna sem á sér stað innan Norður-Atlantshafsbandalagsins og í tengslum við starfsemi NATO. Það er furðulegt að standa hér enn og hlusta á gömlu klisjurnar úr munni alþýðubandalagsmanna um það hvernig eigi að tryggja frið og öryggi og hvernig standa skuli að úrlausn á alþjóðavettvangi. Ég hélt satt að segja að þeir alþýðubandalagsmenn hefðu eins og aðrir lært eitthvað af þeim atburðum sem hafa verið að gerast í samtíðinni og væru reiðubúnir til að laga sig að þeim breytingum sem orðnar eru en það hefur komið fram að svo er ekki.
    Mér þótti úr hófi gengið þegar hv. 5. þm. Vestf. sagði að Atlantshafsbandalagið ætlaði að tryggja frið með ótta, hungri og fátækt. Hvernig í ósköpunum dettur manninum í hug að kenna þetta við Atlantshafsbandalagið? Ef einhver öfl í heiminum hafa reynt að halda völdum með ótta, hungri og fátækt, þá er það kommúnisminn. Og það hefur komið í ljós með hruni hans nú á undanförnum missirum að þar er fólk haldið ótta og hefur búið við hungur og fátækt um áratugaskeið, ólíkt því sem verið hefur hér á Vesturlöndum.
    Hv. 5. þm. Vestf. fór að væna hæstv. utanrrh. og hv. 17. þm. Reykv. um að þeir hefðu verið í Alþb. og væru þess vegna á sama báti og þeir alþýðubandalagsmenn. Sá mikli munur er á að þessir menn hafa yfirgefið Alþb. og gert upp við marxismann og kommúnismann. Og það var m.a. deila í Alþb., sem hv. 17. þm. Reykv. tók þátt í um stalínismann og kommúnismann, sem olli því að hann sagði sig úr flokknum. Og hið sama má segja um hæstv. utanrrh. Fáir menn hafa á undanförnum árum og missirum verið djarfari í sókninni gegn kommúnismanum en hæstv. utanrrh. í málflutningi sínum gegn þeim sjónarmiðum sem enn ráða ríkjum í Alþb. Það er því alveg út í hött að hlusta á þessar ræður eins og þessir menn, sem hafa yfirgefið Alþb., séu á sama báti og þeir sem enn sitja í flokknum og þora ekki að gera upp við fortíðina, dragnast með fortíðarvandann og forðast að ræða hann og kjósa frekar að vera með útúrsnúninga eins og hv. 5. þm. Vestf. var með í sinni ræðu. Það er í samræmi við annað í málflutningi Alþb., þeir eru fastir í fortíðinni, þora ekki að gera upp við hana og treysta sér ekki nú, þegar heimurinn hefur gerbreyst, að horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa og taka þátt í því mikilvæga þingmannasamstarfi sem fer fram og er hér til umræðu á grundvelli ágætrar skýrslu sem liggur fyrir um það mál.