Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:28:00 (4622)

     Karl Steinar Guðnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt þegar hv. 8. þm. Reykn. kvaddi sér hljóðs væri það í því skyni að biðjast afsökunar á fortíð Alþb. Það gerðist ekki. Þykir mér það miður vegna þess að full ástæða er til þess að biðjast afsökunar á þjónkun fyrirrennara hans við það austræna valdakerfi sem nú er hrunið. Í stað þess flytur þingmaðurinn ólíkindaræðu hvað söguskoðun snertir og segir svart vera hvítt og hvítt svart.
    Ég hélt að í dag væri enginn í vafa um það að Atlantshafsbandalagið er það friðarbandalag sem varðveitt hefur friðinn í Evrópu, að Atlantshafsbandalagið er það friðarbandalag sem réði niðurlögum kommúnismans. Það eru staðreyndir málsins, annað ekki.