Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:32:00 (4625)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er varla að maður þurfi þess eftir afhroð hv. þm. áðan þegar hann var rekinn á gat og gat engu svarað til útskýringar á ummælum sínum. Við eigum kannski að biðjast afsökunar á því að hafa tekið við Hannibal Valdimarssyni, manninum sem menn gátu ekki haft sem formann Alþfl. og ráku hann af höndum sér. Eigum við að biðja Alþfl. afsökunar á því? E.t.v., ég held þó ekki. Ég held að það sé óþarfi. En það stendur upp úr þessari umræðu að þrátt fyrir það að menn geti ýmislegt rætt innan NATO og ekki allt slæmt, ekki ætla ég að halda því fram, þá stendur það eftir bandalagið og þingmannasamtök þess hafa ekki haft neinn áhuga á því að tryggja réttindi þegnanna í þeim ríkjum þar sem þau hafa verið fótum troðin ef þau ríki hafa verið aðildarríki bandalagsins. Menn hafa ekki haft áhuga á réttindum alþýðu í Grikklandi, réttindum alþýðu eða þjóðarbrota í Tyrklandi. Það er niðurstaðan. Íslandsdeild þingmannasamtaka NATO getur ekkert um það sagt og virðist ekki velta því fyrir sér, hvað þá að hafa nokkrar áhyggjur af því.
    Ég vil að lokum, fyrst sú staða er nú uppi að upplausn er í austri og hrunið rotið kerfi sem löngu mátti vera farið, biðja hv. þm. Karl Steinar að íhuga hvort sé nú vænlegra þegar til framtíðar og friðar er horft að framleiða meira af sprengjum, meira af skriðdrekum og því um líku til að beina í austurátt eða hjálpa því fólki með fæði og klæði.