Almannatryggingar

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:52:00 (4627)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil þakka flm. fyrir að hafa hreyft þessu máli sem er mjög gott og merkilegt. Reyndar fluttu kvennalistakonur nokkuð skylt mál á þingi 1988, þ.e. um umönnunarbætur, en það náði ekki fram að ganga. Þetta mál vekur athygli á því hversu mikil þörf er fyrir allsherjarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Lagabálkurinn er frá 1971 en margoft hafa verið gerðar breytingar og viðbætur við almannatryggingalögin í takt við

breytta tíma. Þær breytingar sem lagðar eru til eru að mínum dómi mjög þarfar og merkar enda um misrétti að ræða gagnvart ákveðnum hópum.
    Eins og fram kom í máli flm. er ekki um stóra hópa að ræða og því ekki um ýkja háar upphæðir að tefla. Hins vegar kemur þar á móti að þetta eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Eins og hv. þm. rakti getur það skapað heimilisfólki mikla erfiðleika að hafa veikt, gamalt eða fatlað fólk á heimili. Eins og við vitum er mjög erfitt að koma fólki fyrir á sjúkrastofnunum. Það er að verða eitt helsta vandamál sem við er að glíma í heilbrigðiskerfinu að fá pláss fyrir jafnvel mikið veikt gamalt fólk. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að vera hægt að sinna veiku, gömlu fólki en það er ljóst að við eigum mjög langt í land með það. Því er um að ræða að reyna að aðstoða aðstandendur við að annast sína nánustu.
    Ég vona að frv. fái skjóta og góða afgreiðslu og ekki munum við kvennalistakonur liggja á liði okkar. Það er óþarfi að hafa um þetta mörg orð, en ég fagna því að frv. skuli nú komið fram og læt máli mínu lokið.