Almannatryggingar

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:55:00 (4628)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Satt að segja er hreyft mjög stóru máli og með þeim hætti að ástæða hefði verið til þess að eyða í það álíka löngum tíma og farið hefur í sum mál fyrr í dag, þar sem hæstv. forseti þingsins beitti sér fyrir frjórri umræðu, eða hitt þó heldur, við að grafa í nöflum fortíðarinnar.
    Hér er flutt frv. sem mundi gjörbreyta aðstöðu í sambandi við þjónustu við aldraða í þessu landi. Hér er verið að flytja frv. sem mundi breyta í grundvallaratriðum núverandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við skulum gera okkur grein fyrir því að einn aðalvandi tryggingakerfisins og heilbrigðiskerfisins er sá að sett voru lög fyrir fáeinum árum, m.a. með mínu atkvæði og fleiri góðra manna, um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem í raun og veru útlokar að ríkið geti sinnt veiku fólki á heimilum. Það er bannað. Það er hlutverk sveitarfélagsins. Og eins og kunnugt er þá tekst misjafnlega til í þeim efnum. Við höfum t.d. rætt um það í tengslum við þær sparnaðaraðgerðir sem nú standa yfir á ríkisspítölunum og eru mjög sársaukafullar hvort það er hugsanlegt að í staðinn fyrir að loka með býsna grófum hætti í heilt ár, svo að segja, öldrunardeildum, m.a. í Hátúni að nota eitthvað af fjármununum til þess að hlynna að þessu fólki og sinna því heima hjá sér. Niðurstaðan er sú að það er ekki hægt eins og kerfið er í dag. Þess vegna er þetta mjög róttækt frv. sem hér er flutt. Það er róttækt að því leytinu til að það vegur að þessu stálþili sem menn reyndu að reka á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem kemur niður á þegnunum, sem kemur niður á almenningi. Þetta birtist í heilbrigðismálum, þjónustu við aldraða og kannski ekki síður í skólamálum sem eru þó ekki á dagskrá hér.
    Þetta frv. er líka merkilegt fyrir þær sakir og sú hugsun, sem hv. þm. hreyfir, að með þessum aðgerðum væri hægt að ná utan um vandann sem í dag virðist óleysanlegur hér á Reykjavíkursvæðinu t.d. Það er talað um að í Reykjavík einni vanti hjúkrunarpláss fyrir 200--300 aldraða einstaklinga, hjúkrunarrými svipað og í Skjóli. Ef við gerum ráð fyrir að hér sé um að ræða 300 einstaklinga og ef við gerum ráð fyrir því að það ætti að setja upp stofnun með svipuðum hætti og Skjól er til að sinna þessu fólki, þá kostar vissulega mikið að byggja þau hús en það eru þó smámunir miðað við hvað kostar að reka þessar stofnanir. Eins og hv. þm. gat um áðan þá er kostnaðurinn um 7.200 kr. á dag eins og þessu háttar núna eða 216.000 á mánuði eða 2 millj. kr. á ári.
    Ef við gerðum ráð fyrir því að við tækjum á vanda fólks sem býr við hraklegar aðstæður heima hjá sér um þessar mundir þar sem oft eru aðrir aldraðir að reyna að velta hinum sem er veikari og fæða og þjóna og þrífa, ef við skoðum þessi mál og reynum að nálgast þau út frá forsendum þessa frv. þá er alveg ljóst að það væri hægt að leysa þau með mikið ódýrari og skjótvirkari hætti. Ef við gerðum ráð fyrir því að sú leið væri farin sem gerð er tillaga um í þessu frv. þá mætti taka á vanda þessa fólks og ef við miðum við að það fengi allt 47.111 kr. á mánuði, sem er þó hámark þess sem lagt er til, og við næðum til 300 einstaklinga þá yrði kostnaðurinn við það um 170 millj. kr. á ári í staðinn fyrir 900 millj. kr. ári. Hér er sem sagt verið að tala um upphæðir sem eru hvorki

meira né minna en rúmar 700 millj. kr. á ári. Ég kýs að nálgast málið svona frekar en að nálgast það með því að segja: Þessi aðferð gæti orðið til að losa um eitthvað af þeim rúmum sem eru til. Ég vil byrja á því að leysa vanda þess fólks sem er núna heima hjá sér og fær engin úrræði eins og staðan er í dag af því ekki eru til hús og þó það séu til hús þá eru þau ekki tekin í notkun, eins og dagdeildin í Skjóli sem er búin að standa tilbúin í þrjú missiri en fæst ekki tekin í notkun. Hún fékkst t.d. ekki tekin inn á fjárlög þessa árs þrátt fyrir verulegan eftirrekstur af hálfu fjölmargra aðila, m.a. þeirra sem fara með rekstur þeirrar stofnunar.
    Ég held þess vegna að það væri full ástæða til að á þessu máli væri tekið með þeim hætti að þar ættust ekki aðeins við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, en það má segja að góð meining þeirra geri litla stoð um þessar mundir. Þar þyrfti fleira að koma til. Ég held að þeir menn, sem tala mikið um að spara í heilbrigðiskerfinu núna, ættu að skoða hugmyndir af þessu tagi í staðinn fyrir að vaða um eins og naut í flagi, með leyfi forseta, en það er tilvitnun í Morgunblaðið.
    Það væri fróðlegt að velta því fyrir sér um hversu marga einstaklinga er hér að ræða. Ég held satt að segja að ef opnað væri fyrir þessar heimildir á annað borð þá yrðu þeir mjög margir. Ég er ekki alveg viss um að orðalag frv., eins og það liggur fyrir, takmarki þetta nægilega mikið vegna þess að ég geri ráð fyrir því að ásóknin yrði alveg gríðarleg. En þó kann svo að vera. Hv. flm. þekkir þessi mál mjög vel, betur en flestir aðrir, þannig að það kann vel að vera að hér séu reistar nægilegar skorður. En auðvitað verður að vera með þetta eins og aðra félagslega þjónustu að á henni sé haldið þannig að hún sé almenn, að hún veitist á grundvelli skýrra reglna en ekki óskýrra, en óskýrar reglur opna eins og kunnugt er fyrir klíkuskap og ranglæti af ýmsu tagi og verða oft til þess að eyðileggja þá góðu fyrirætlan sem lög um félagslega þjónustu, heilbrigðismál eða tryggingamál eða hvað það nú er gera þó ráð fyrir.
    Með öðrum orðum, ef tekið er á vanda einstaklings með þeim hætti, sem hér er gerð tillaga um, í stað þess að vista hann á Skjóli, sem er bara nefnt hér sem dæmi og ekki vegna þess að Skjól sé dýrast af öllu, langt frá því, það eru til dýrari stofnanir en Skjól, líka ódýrari auðvitað, þá sparar það í útgjöldum fyrir þennan eina einstakling 1 millj. 463 þús. kr. á ári. Fyrir utan það manneskjulega í þessu efni sem er að fólkið geti verið heima hjá sér sem lengst og ekki er hægt að reikna út neinn arð af út af fyrir sig en er auðvitað frá almennu, mannlegu réttlætissjónarmiði skynsamlegra en þessi feiknalega ásókn í stofnanavistun sem hér er uppi og hefur lengi verið. Hún er kannski fyrst og fremst nauðvörn vegna þeirra laga sem gilda um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að fólk hefur verið rekið inn á stofnanir af því að ríkið hefur ekki fengið að koma inn í nærþjónustuna á heimilunum sem þó mundi spara bæði ríkinu og þjóðinni í heild stórkostlega fjármuni og mundi auk þess vera betri fyrir þetta fólk, bæði félagslega og einnig skoðað út frá heilbrigðissjónarmiði.
    Ég tek undir það með hv. flm. að ég vænti þess að þetta mál fái alvarlega skoðun í hv. heilbr.- og trn. og mun fyrir mitt leyti, en ég á sæti í nefndinni, beita mér fyrir því af þeim litla mætti, sem ég hef, að svo geti orðið.