Almannatryggingar

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 18:05:00 (4629)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hv. 11. þm. Reykv. Ástu Ragnheiði fyrir að leggja fram þetta frv. til breytingar á lögum um almannatryggingar. Þetta er eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði, mjög stórt mál og merkt og í tíma talað, einmitt núna á þessum tímum þegar erfiðleikarnir eru hvað mestir að koma öryrkjum og sjúklingum inn á sjúkrahús.
    Hv. 11. þm. þekkir þetta mál vel frá sínum vinnustað og veit hvar skórinn kreppir og þess vegna tel ég að hv. þm. hafi náð mjög vel einmitt utan um þetta mál. Það eru ýmsar gloppur í almannatryggingalögunum sem endilega þarf að ná utan um eins og t.d. að eftir að barn sem er öryrki nær 16 ára aldri falla umönnunarbætur niður um leið og það

kemst á örorkubætur en náttúrlega minnkar þá ekkert umönnun hins fatlaða eða sjúka. Þess vegna er svo mikilvægt einmitt, eins og hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á, að ekki sé verið að reka þetta fólk út af heimilunum ef það er lífsins möguleiki að hafa það heima en það er einmitt það sem er að gerast, fólkið sem annast þessa einstaklinga gefst upp. Ef maður skoðar t.d. hvaða erfiðleikar eru í dag að koma öldruðu fólki inn þá hefur plássum fækkað á undanförnum vikum um 53 öldrunarrúm og 50 hvíldarpláss sem fólk hefur vitað hingað til að það hefur getað fengið aðstandendur sina lagða inn á. Ef við hugsum um sparnaðinn, sem getur orðið af því að öryrkjar geti verið meira heima og lengur, þá kostar dagur á sjúkrahúsi 18.000 kr. Af þessu er því mikill sparnaður og hagræðing og það þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Og það er annað sem við þurfum að skoða, einmitt í þessu dæmi að t.d. ef barn sem fær átta tíma þjónustu utan heimilis þá missa foreldrarnir umönnunarbæturnar. En þá eru 16 tímar eftir af sólarhringnum og yfirleitt eru þetta mjög erfiðir einstaklingar þannig að þetta mál þurfum við líka að taka fyrir. Málið fer auðvitað fyrir heilbrn. og fær eflaust mjög jákvæða umfjöllun þar.
    Ég þakka hv. flm. enn og aftur fyrir að leggja þetta mál fram.